Sigurður Bragason hefur stýrt sínum síðasta leik með ÍBV en hann bindur nú enda á 31 ára feril hans hjá ÍBV, sem leikmaður og þjálfari. Síðasti leikurinn hans var í dag er Haukar unnu einvígið við ÍBV 2:0 og unnu sér um leið sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik kvenna.
Lokatölur í leik dagsins voru 19:23 en ÍBV leiddi framan af áður en Haukar tóku öll völd á vellinum í upphafi síðari hálfleiks.
„Tilfinningarnar eru erfiðar, ég ætla bara alveg að viðurkenna það, ég er bara á mörkum þess að fara að grenja, þess vegna ætlaði ég bara að labba hérna út,“ sagði Sigurður rétt eftir að blaðamaður stoppaði hann á leiðinni úr Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum þar sem Sigurður hefur eytt mjög mörgum dögum síðustu árin.
Er Sigurður stoltur af tíma sínum hjá ÍBV?
„Gjörsamlega, mjög. Þetta eru 31 ár sem ég hef unnið og gefið mig allan í þetta, alltaf. Að sjálfsögðu er ég mjög stoltur, ég með risa ÍBV hjarta og það hefur enginn í klúbbnum unnið eins lengi og ég, svo það sé á hreinu. Að sjálfsögðu er ég ógeðslega stoltur,“ sagði Sigurður en hann er ekkert ósáttur með hvernig hann endar tíma sinn hjá ÍBV, þrátt fyrir erfitt tímabil í ár.
„Við byrjuðum svona, fyrsta árið, þá vorum við að koma upp ungum stelpum sem komust inn í A-landsliðið, eins og Harpa og Elísa, við toppuðum síðan með geggjuðu tímabili 2023, sem var ógeðslega gaman. Svo þarf að fara að byggja upp aftur eins og landsbyggðaliðin lenda í, þetta var leiðinlegt með Hrafnhildi Hönnu hjá okkur, sem var algjör clutch-leikmaður hjá okkur, það var vont að missa hana út. Að enda síðan bara með 11 3. flokks stelpur, þær eru ógeðslega flottar.“
„Maður var orðinn þreyttur en það er ógeðslega gaman að vera með þeim, það eru týpur þarna eins og Birna María, Birna Dís, Ásdís, Agnes Lilja og Birna Dögg, týpur sem ég fýla í botn og maður hlakkaði til að hitta. Ég hefði ekkert viljað enda þetta á einhvern annan hátt, því við erum ekkert með lið til að vera í toppbaráttu, það er bara þannig. Ég er stoltur af því að enda þetta á því að gefa þeim þennan séns.“
Á tímabili leit út fyrir það að ÍBV myndi falla um deild en það slapp fyrir horn og liðið komst í úrslitakeppnina.
„Ég var stressaður fyrir því að falla, við töpuðum 10 leikjum í röð, þá var Marta meidd og Sunna meidd. Þá erum við bara með þessar 3. flokks stelpur og Birnu Berg sem var flott og var að draga vagninn. Að þessu búum við núna, þær eru orðnar ógeðslega flottar og þetta var flott hjá þeim, við brotnuðum aldrei. Á þessum kafla spiluðum við alla leiki góða, nema einn sem var á móti Gróttu heima. Við vorum yfir á móti Val og duttum út úr bikarnum í hörkuleik, jafntefli við Fram úti, við töpuðum eiginlega alltaf í restina því við vorum ekki með breiddina í þetta. Þetta var alls ekkert hræðilegt og við vorum ekki með lið í að gera meira en þetta.“
Hvað tekur við hjá Sigga Braga?
„Trillan hugsa ég, ég veit það ekki alveg. Ég er til í að vera áfram í einhvers konar þjálfun, ég var alltaf í krakkaþjálfun en það er undir ÍBV komið, þeir ráða því. Það er líka kannski gott að fara aðeins í burtu, í frí aðeins. Þetta er 31 ár og þá er maður aðeins súr og leikmenn súrir gagnvart þér, þá er alveg eins gott að fara út í eyju, hjálpa Kalla í golfinu, fara í fótboltann eða eitthvað bara. Ég verð að vera í einhverju sporti, alveg frá því að ég var eins árs þá er það alltaf bara eitthvað sport, ég treysti mér ekki alveg að vera án þess. Ég veit ekkert hvað tekur við en það verður eitthvað skemmtilegt, kannski bara trillan,“ sagði Sigurður að lokum en hann lítur sáttur yfir tíma sinn hjá ÍBV.