Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Vor er í handboltanum á Akureyri ef horft er til þess að bæði karlalið Þórs og lið KA/Þórs unnu sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handknattleik næsta vetur. Sameiginlegt lið er því í efstu deild kvenna og bæði Þór og KA í efstu deild karla næsta vetur.
Hefðin fyrir íþróttinni er mikil og góð á Akureyri. KA og Þór hafa alið upp ófáar handboltakempurnar í gegnum tíðina.
Í safni Morgunblaðsins leyndist þessi ljósmynd en ekki er gott að segja til um hvað Þórsarinn brögðótti Sigurpáll Árni Aðalsteinsson ætlaði sér í þessari sókn gegn Stjörnunni í íþróttahöllinni á Akureyri. Myndina tók Guðmundur Svansson fyrir Morgunblaðið en á að giska er hún tekin seint á níunda áratugnum. Um það leyti varð Stjarnan tvívegis bikarmeistari karla í handknattleik.
Sigurpáll Árni var vinstri hornamaður eins og handboltaunnendur þekkja og nýtti marktækifærin með ólíkindum vel. Þarna er hann á lítt kunnari slóðum og hefur ef til vill leyst inn á línu. Myndin er í það minnsta skemmtileg þar sem Sigurpáll reynir að gera sér mat úr aðstæðum en er í fanginu á Garðbæingi sem sést ekki vel á myndinni hver er. Er sá á bak við Einar Einarsson leikmann Stjörnunnar sem fylgist vel með gangi mála enda öflugur varnarmaður á sínum tíma.
Þórsarinn Árni Stefánsson fylgist forvitinn með framvindunni en ekki eru þetta svo sem mestu fangbrögð sem hann varð vitni að á íþróttavellinum. Samherji hans Ólafur Gísli Hilmarsson sést fyrir aftan Árna.
Leikmaður Stjörnunnar Hermundur Sigmundsson, sem ritað hefur pistla í sunnudagsblað Morgunblaðsins árum saman, ,virðist hafa einhverjar skoðanir á því sem gengur á miðað við látbragðið.