Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, segir líklegt að hún hafi spilað sína síðustu leiki í íþróttinni. Lokaleikurinn hennar var því tap gegn Haukum sem kláruðu einvígið gegn ÍBV 2:0 og unnu sér um leið sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik kvenna.
„Við erum aðeins á eftir þeim á ákveðnum sviðum, það er búið að vera stígandi í þessu hjá okkur og það var mikill léttir að enda í úrslitakeppninni eftir mjög krefjandi og erfiðan vetur. Við unnum fyrir því og áttum það alveg skilið, þetta var herslumunurinn og ákveðnir hlutir sem við erum á eftir þeim í, þær eru betri en við í dag. Ég vona að þeim gangi vel en við sýndum alveg hvað í okkur býr og vorum vaxandi með hverjum leiknum,“ sagði Sunna stuttu eftir leikinn.
ÍBV gaf bikarmeisturum Hauka góða leiki og var Sunna ánægð með spilamennskuna í leikjunum.
„Við áttum þær einnig í síðasta deildarleiknum og erum með mjög ungt lið þó ég sé inni í því enn þá. Þetta hafa verið flottir leikir þrátt fyrir töp en við vorum að reyna að koma okkur í það hugarfar að ætla að vinna. Við erum samt sem áður stoltar og þetta eru mjög flottar, efnilegar og ógeðslega duglegar stelpur sem við eigum. Þær eru með hugarfarið á hárréttum stað og munu búa lengi að þessum vetri. Ég er ekkert endilega svekkt þrátt fyrir 2:0 tap gegn Haukum.“
Sunna byrjaði leikinn af miklum krafti, skoraði þrjú af fyrstu sjö mörkum ÍBV með fjórum skotum og kom liðinu í 7:5 með hennar síðasta skoti í leiknum á 11. mínútu. Hvað veldur því?
„Ég er búin að vera í smá brasi, persónulega, ég hef verið orkulítil og í smá meiðslum og fann að ég átti ekki mikið eftir. Ég ætlaði svoleiðis að vera all-in en sömuleiðis er maður ekkert einn í liðinu. Ég gerði mitt besta en kannski var orkan farin eftir fyrstu tíu.“
Hvað tekur við hjá Sunnu?
„Takk fyrir að spyrja að því, það tekur við góð pása held ég, aðeins að núllstilla og fá að hugsa aðeins. Ég er hætt í landsliðinu og hætti líklega að spila líka, ég er ótrúlega stolt og þakklát, það er mikill heiður að hafa verið í þessu svona lengi og geta hætt á sínum forsendum. Hjá ÍBV hefur þetta verið ótrúlegt,“ sagði Sunna en hún hugsar hlýlega til ákvörðunarinnar að flytja til Vestmannaeyja og skipta í ÍBV.
„Ég fann einhverja svona gleði, kraft og ástríðu fyrir þessu aftur þegar ég kom hingað. Þvílíkt draumalíf að ala hérna upp barn og spila handbolta fyrir þetta fólk og vera með í öllu. Það er ótrúlega mikil ástríða og samstaða, þetta hefur verið lærdómsríkt, við unnum titla og það stendur upp úr að hafa siglt þessu heim, það var draumurinn þegar ég skrifaði undir. Allt fólkið sem maður hefur kynnst, ég er mjög þakklát og stolt. Ég mun aldrei sjá eftir því að hafa flutt hingað, þetta er ótrúlegur staður og það er erfitt að lýsa því.“
Kemur Sunna til í að vera eitthvað í kringum handbolta áfram ef ferlinum er lokið sem leikmaður?
„Já, ég efast ekkert um það, ég hef áhuga á þjálfun og handbolti hefur verið mitt líf og yndi alla tíð. Hvað sem verður þá hafa allir gott af smá pásu, ég frá boltanum og boltinn frá mér, en þetta verður alltaf einhvers staðar. Strákurinn minn er boltasjúkur þannig þetta fer ekkert langt.“