Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram í handbolta var ekki í góðu skapi þegar hann ræddi við mbl.is í kvöld, enda nýbúinn að sjá liðið sitt fá skell á móti FH, 36:20, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins.
Staðan í einvíginu er enn 2:1 fyrir Fram, en liðið missti af tækifæri til að komast í úrslitin í kvöld.
„Ég vil ekki segja hvað ég var að hugsa um að segja. FH-ingar voru miklu betri og við áttum engin svör. Við vorum lamdir út úr þessum leik. Á köflum var þetta ekki handbolti en það eru ákveðnir menn sem leyfa þetta. Reglurnar virðast vera öðruvísi hjá FH en hjá okkur.
Það er leiðinlegt. Þetta þarf að vera sanngjarnt. Þetta var líka svona í síðasta leik. Við náðum að bjarga því en við áttum ekki séns í kvöld. Við þurftum að spila eins og heimsmeistarar til að vinna þennan leik en við vorum mjög langt frá því. Við vorum ógeðslega lélegir í dag,“ sagði Einar.
Fannst honum FH-ingarnir þá svona grófir?
„Þeir eru grófir og ekki grófir. Þegar við erum reknir út af fyrir brot, þarf að gera það hinum megin fyrir eins brot líka. Það var ekki í þessum leik og ekki í síðasta leik. Þegar það eru dæmd skref á okkur á að dæma skref hinum megin líka.
Eina sem ég bið um er að þetta sé sanngjarnt og það sé dæmt eins báðum megin. Við gerum allir mistök og ég líka en þetta þarf að vera eins báðum megin. Það er óþolandi. Aðalatriðið er samt það að FH spilaði frábærlega í kvöld og við vorum ömurlegir,“ sagði hann.
En hvernig fór Fram að því að vinna fyrstu tvo leikina en fá svo stóran skell í kvöld?
„Við höfum verið svona í vetur. Við höfum átt frábæra leiki og komist á skrið en svo höfum við dottið niður á mjög lágt plan inn á milli. Sem betur fer hefur það bara verið einn og einn leikur og við þurfum að rífa okkur aftur upp. Við förum yfir þennan leik í höfðinu á okkur. Það er alveg eins gott að tapa með 20 mörkum eins og með einu.
Ég er hrikalega ánægður með okkur. Við erum að spila á móti frábæru liði og ég veit ekki við hverju menn voru að búast. Við erum á góðu róli. Við rífum okkur í gang og verðum drulluflottir í næsta leik,“ sagði Einar.