Elliði Snær Viðarsson og Aron Pálmarsson verða ekki með íslenska landsliðinu í handbolta er liðið mætir Bosníu á útivelli og Georgíu á heimavelli í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í byrjun næsta árs. Eru þeir báðir að glíma við meiðsli.
„Elliði hefur ekkert spilað með Gummersbach síðustu vikur. Hann meiddist fljótlega eftir síðasta landsliðsverkefni. Hann verður ekki klár og þá er fínt að fá Arnar aftur inn og leyfa honum að fá mínúturnar sem Elliði hefði annars fengið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is.
Aron spilaði síðasta leik með Veszprém, þrátt fyrir að vera að glíma við meiðsli.
„Hjá Aroni var þetta betri lending en að fá hann í þetta verkefni á annarri löppinni. Við þurfum ekki að spara hann þá eða pæla í honum. Hann er ekki 100 prósent heill heilsu og hefði þurft að tjasla sig saman fyrir þessa leiki.
Þegar hópurinn er þetta heill er það óþarfi. Mér fannst meira skynsamlegt að hann myndi einbeita sér að þessum leikjum sem eftir eru með Veszprém og reyna að ná sér 100 prósent heilum. Hann hefur sýnt það að hann er rúmlega gjaldgengur í þetta lið og við þurfum á honum að halda,“ útskýrði Snorri.
Arnar Freyr Arnarsson er í hópnum, þrátt fyrir að hann hafi ekki leikið með Melsungen í undanförnum leikjum. Bakslag kom í bata Arnars, þar sem hann fór of snemma af stað vegna meiðsla sem hann varð fyrir í landsleik í byrjun árs.
„Það var ekki nægilega vel gert hjá sjúkrateyminu úti. Hann fór of snemma af stað og það bitnaði á honum. Hann verður vonandi með í næsta leik Melsungen og ef ekki þá gegn Bidasoa á þriðjudaginn. Ég veit hvernig hann er búinn að æfa og hvernig standið á honum er. Það er gott og mikilvægt að fá hann inn í þennan hóp, sérstaklega því Elliði er meiddur,“ sagði Snorri.