Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals var að vonum ánægður með sigur á Aftureldingu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld. Valur er 2:1 yfir í einvíginu og getur með sigri í næsta leik liðanna á mánudag tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi gegn annaðhvort FH eða Fram. Spurður út í leikinn í kvöld sagði Óskar þetta:
„Þetta var geggjaður sigur. Við vorum okkur ekki til sóma í síðasta leik gegn þeim og þá meina ég það ekki af því við töpuðum fyrir Aftureldingu sem er algjörlega frábært lið, heldur út af því hvernig við mættum í þann leik og vorum hálfstemmningslausir og með furðulega orku. En það gerist stundum.
Í kvöld var annað uppi á tengingunum og við vorum algjörlega mættir til leiks en kannski sjálfum okkur verstir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum kannski aðeins of æstir í að vinna þennan leik þannig að það bitnaði smá á gæðunum þegar kom að því að klára færin í fyrri hálfleik. Þannig að það vantaði svolítið upp á hjá okkur í fyrri hálfleik sóknarlega.
Varnarlega vorum við að mestu flottir og sérstaklega í stöðunni 12:9 þá bara vorum við mættir. Afturelding er hörkulið með frábæran þjálfara þannig að það var vitað að þetta yrði svakaleg rimma. En það var betra að fara inn í hálfleik í stöðunni 16:12 undir en 16:10 eins og síðast.
Seinni hálfleikur var síðan rosalegur og bauð upp á allt sem handbolti getur boðið upp á. Bara frábær leikur myndi ég segja.“
Einhverjir myndu segja að sigur Valsmanna stafi fyrst og fremst af því að Afturelding missir lykilleikmann af velli í fyrri hálfleik, Birgi Stein Jónsson. Ertu sammála því?
„Það var leiðinlegt að missa hann af velli. Við viljum hafa alla inni á vellinum. En, já, klárlega hefur það haft mikið að segja fyrir þá. Hann og Blær eru lykilskyttur fyrir Aftureldingu þannig auðvitað hefur þetta áhrif. En svona gerist í úrslitakeppninni. Það eru öll lið að díla við eitthvað. Það vantar 3-4 í lið Fram og FH er án Jóhannesar Bergs, við erum án Ísaks og Alexanders Petterson. Þetta er svona í úrslitakeppni.“
Nú er það samt tryggt að oddaleikurinn mun fara fram á Hlíðarenda en Valur getur samt sem áður tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið með sigri í Mosfellsbæ á mánudag. Sérðu það fyrir þér?
„Já, en það er tvennt sem við þurfum að taka út úr þessum leik. Í fyrsta lagi að vera með þessa gleði, orku og vera til staðar á vellinum. Án þess þá eigum við ekki séns.
Í öðru lagi þurfum við að bæta örlitlum gæðum við bæði varnar- og sóknarleikinn. Frábært er að vera svona vel stemmdir og til í þetta en við megum ekki gleyma að vanda okkur.“
Nú spyr ég um nýtingu á færum. Einar Baldvin ver 11 skot í fyrri hálfleik og 2 skot í seinni. Hvað veldur því að hann er ekki að klukka jafn mikið af boltum frá Valsmönnum í seinni hálfleik?
„Ég held að tilfinningin í fyrri hálfleik hafi verið smá eins og við værum 2:1 undir af því við skömmuðumst okkar fyrir frammistöðuna í síðasta leik. Síðan ef eitthvað klikkar þá fara menn að hiksta og vera óöruggir. Síðan þegar menn slaka á og anda smá í hálfleik og við förum yfir það að Einar Baldvin er frábær markvörður og það þarf að vanda sig á móti honum þá kannski verða menn slakari í þessu.
Við erum vanir þessu. Við förum oft illa með dauðafæri en náum samt að vinna. Við erum dálítið óútreiknanlegir og erum kannski furðulegasta dýrið í þessum undanúrslitum.“
Ísak Gústafsson er á skýrslu í kvöld en spilar ekkert. Mun hann fá mínútur í næsta leik?
„Agnar Smári, Viktor og Bjarni voru góðir þessar síðustu 20 mínútur. Planið var að prófa hann í seinni hálfleik en sem betur fer þurfti það ekki. Þetta er bæði ökli og hné hjá honum þannig hann þarf sem mesta hvíld. Hann mun örugglega fá mínútur í næsta leik en hinir þurfa samt að klára þetta. Hann er ekki orðinn nógu góður. Hann er samt sigurvegari og vill koma inn á og taka þátt í þessu,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.