„Þessar fyrstu vikur eru búnar að vera frábærar, skemmtilegar og krefjandi,“ sagði Jón Halldórsson formaður HSÍ í samtali við mbl.is. Jón tók við Guðmundi B. Ólafssyni sem formaður í byrjun mánaðar og kann vel við sig á nýjum vettvangi.
„Maður byrjaði á þessum krefjandi leikjum hjá kvennalandsliðinu á móti Ísrael og það gekk vel. Það er saga sem er búið að fjalla mikið um. Fyrsta vikan fór í það. Síðan erum við búin að vera á fleygiferð að koma okkar áhersluefnum af stað.
Við erum búin að setja fjárhags- og markaðsnefndir af stað og virkja landsliðsnefndina okkar. Það eru fullt af hlutum sem voru vel gerðir áður, sem við erum að fínpússa og setja okkar handbragð á þetta,“ sagði hann.
Jón var lengi formaður handknattleiksdeildar Vals og er nú tekinn við hjá HSÍ. Hver er munurinn á þeim embættum?
„Fyrsti munurinn er sá að ég er að byrja í einhverju nýju hjá HSÍ og það er fullt af hlutum sem maður þarf að koma inn í. Ég er búinn að vera hjá Val alla mína hunda- og kattatíð og þekki það kerfi eins og lófann á mér. Ég er mikið að læra núna og nýti reynsluna sem er Róberti, Gulla, Óla og Hebba á skrifstofunni.
Maður er ekki lengur bara með Valssamfélagið að fylgjast með þér heldur alla þjóðina. Það endurspeglast í alls konar skilaboðum sem maður fær. Á sama tíma er þetta mjög skemmtilegt,“ sagði hann.
Fjárhagsstaða HSÍ var ekki góð þegar Jón tók við. Það er eitt stærsta verkefnið af mögum sem þarf að ráðast í.
„Eitt af stærstu verkefnunum er hliðin sem snýr að fjárhagnum. Við þurfum að skipuleggja hvernig við ætlum að vinna okkur út úr því. Það er ekki eitthvað sem við klárum á einu ári. Við erum líka að halda áfram þeirri vinnu sem fór af stað áður en við tókum við sem kemur að afreksstarfinu okkar.
Við verðum með handboltaþing 3. maí þar sem við köllum saman 3-4 aðila úr hverju félagi og eigum opið samtal um allt sem við viljum bæta. Ég vil fá alla þessa hluti á yfirborðið svo við getum búið til aðgerðaráætlun til að laga það sem þarf að laga,“ sagði Jón.