Valur tók á móti Aftureldingu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta og lauk leiknum með sigri Vals 30:29. Valur er því yfir í einvíginu og getur tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi gegn FH eða Fram með sigri í næsta leik sem er á mánudag í Mosfellsbæ.
Jafnt var á með liðunum fyrstu 15 mínútur leiksins og varð munurinn aldrei meiri en 2 mörk fram að því. Skiptust liðin á að komast yfir og var ekki hægt að sjá neinn getumun á liðunum.
Þegar líða tók á fyrri hálfleik sigu Mosfellingar fram úr Valsmönnum og byggðu upp ágætis forskot. Það má því helst þakka frábærum markvörslum Einars Baldvins Baldvinssonar sem varði 11 skot í fyrri hálfleik, þar af eitt vítaskot. Fimm af vörslum hans í fyrri hálfleik má flokka sem algjör dauðafæri.
Afturelding náði 5 marka forskoti í 15:10 og 16:11. Þegar innan við mínúta var eftir af fyrri hálfleik var Birgi Steini Jónssyni vikið af velli með rautt spjald fyrir brot á Róberti Aroni Hostert. Blóðtaka fyrir Aftureldingu.
Valsmönnum tókst að skora í sinni síðustu sókn og minnka muninn í 4 mörk í stöðunni 16:12 sem reyndust vera hálfleikstölur.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði 4 mörk, þar af eitt úr víti í fyrri hálfleik og varði Björgvin Páll Gústavsson 6 skot.
Birgir Steinn Jónsson skoraði 5 mörk í fyrri hálfleik fyrir Aftureldingu og varði Einar Baldvin Baldvinsson 11 skot eins og áður segir.
Valsmenn hófu seinni hálfleikinn á að minnka muninn í þrjú mörk. Afturelding náði að skora og auka forskotið í fimm mörk í stöðunni 20:15. Þá kom frábær kafli hjá Valsmönnum sem endaði þannig að Valur jafnaði í stöðunni 21:21 og komst yfir í stöðunni 23:22.
Ljóst var að mikið myndi mæða á Blæ Hinrikssyni eftir að Birgir Steinn fékk rautt spjald. Það vissu Valsmenn og miðuðu að því að koma honum í þröng skotfæri.
Aftureldingu tókst að jafna leikinn í 23:23 og síðan fékk Blær Hinriksson vítaskot sem hann tók sjálfur. Hann skoraði úr vítinu og kom Aftureldingu aftur yfir. Valsmenn jöfnuðu strax úr vítaskoti sömuleiðis.
Þá kom frábær kafli hjá Aftureldingu sem færði þeim tveggja marka forskot í stöðunni 26:24 og 8 mínútur voru eftir af leiknum. Það dugði ekki til því Valsmenn jöfnuðu leikinn og komust yfir í stöðunni 27:26 þegar 5 mínútur voru eftir og spennan í leiknum á suðupunkti.
Valsmenn náðu tveggja marka forskoti í stöðunni 29:27 en Blær Hinriksson minnkaði strax muninn og 1:30 var eftir af leiknum. Afturelding jafnaði leikinn þegar rétt um mínúta var eftir af leiknum en Valsmenn komust yfir með marki frá Kristófer Mána Jónassyni þegar 22 sekúndur voru eftir.
Aftureldingu tókst ekki að skora úr sinni lokasókn og fór aukakast þeirra þegar leiktíminn var liðinn í varnarvegg Vals.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði 11 mörk, þar af 4 úr vítum. Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot.
Blær Hinriksson skoraði 10 mörk, þar af 3 úr vítum, og varði Einar Baldvin Baldvinsson 13 skot, þar af eitt vítaskot.