Fram tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta með sigri á FH, 34:33, í tvíframlengdum fjórða leik í undanúrslitum í kvöld. Marel Baldvinsson skoraði sigurmark Fram 25 sekúndum fyrir leikslok.
Hetjan var þó markvörðurinn Arnór Máni Daðason því hann varði víti eftir að leiktíminn var runninn út í framlengingu tvö.
Fram var yfir stærstan hluta leiks í venjulegum leiktíma en FH gerði vel í að jafna með góðum lokakafla og var staðan 24:24 eftir 60 mínútur og því varð að framlengja.
Ekki tókst að skilja liðin að í einni framlengingu því staðan eftir hana var 28:28. Í annarri framlengingu höfðu Framarar loks betur og leika við Val eða Aftureldingu í úrslitum.