Afturelding hafði betur gegn Val, 29:26, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Afturelding knúði þannig fram oddaleik.
Staðan í einvíginu er 2:2 eftir fjóra heimasigra í röð. Oddaleikurinn fer fram á Hlíðarenda næstkomandi föstudagskvöld þar sem ræðst hvort liðið mætir Fram í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.
Eftir jafnræði til að byrja með náði Afturelding að slíta sig aðeins frá gestunum með því að komast í 7:4 eftir tæplega níu mínútna leik.
Valur jafnaði sig fljótt, jafnaði metin í 7:7 og komst svo yfir, 8:9, í fyrsta sinn í leiknum þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Valsmenn náðu í kjölfarið undirtökunum og komust í 10:13.
Í stöðunni 10:12 tók Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, leikhlé og þrátt fyrir að fá á sig næsta mark virtist það gefa heimamönnum byr undir báða vængi.
Þeir skoruðu nefnilega síðustu sex mörk fyrri hálfleiks, komust þannig í 16:13 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Vörnin small þá svo um munaði hjá Aftureldingu, sem fékk ekki á sig mark síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks. Einar Baldvin Baldvinsson var öflugur í markinu en hann varði sjö skot í hálfleiknum.
Blær Hinriksson og Ihor Kopyshynskyi reyndust Valsmönnum erfiðir en þeir voru báðir komnir með fimm mörk að fyrri hálfleiknum loknum.
Afturelding hóf síðari hálfleikinn af svipuðum krafti og liðið endaði þann fyrri og komst fljótt fimm mörkum yfir, 19:14. Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, tók þá leikhlé enda auðsjáanlega hætt að lítast á blikuna.
Eftir að hafa skorað aðeins tvö mörk á 18 mínútum hresstust Valsmenn aðeins við eftir leikhléið og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 22:19.
Afturelding náði aftur fimm marka forystu og það nokkrum sinnum. Þegar rúmar sex mínútur voru til leiksloka náði Valur aftur að minnka muninn niður í þrjú mörk og svo í tvö mörk, 27:25, þegar fjórar og hálf mínúta lifðu leiks.
Það var hins vegar Afturelding sem skoraði næstu tvö mörk, komst þannig fjórum mörkum yfir og sigldi að lokum þriggja marka sigri í höfn.