„Við byrjum illa. Við reyndar komum til baka og komumst í 10:7 eftir að hafa tekið 6:0 kafla,“ sagði Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, eftir að liðið tapaði 29:26 fyrir Aftureldingu í fjórða leik í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik.
„Svo dettur einhvern veginn allt út hjá okkur og þeir taka 6:0 kafla. Við klúðrum dauðafæri eftir dauðafæri.
Við erum að fá fín færi en þetta eru bara tvö góð lið að berjast um að komast í úrslit. Þetta var svo sem flottur leikur í heildina en við klúðruðum allt of mikið af dauðafærum,“ sagði Magnús Óli í samtali við mbl.is eftir leikinn.
Fram undan er oddaleikur á Hlíðarenda næstkomandi föstudagskvöld. Það líst honum ansi vel á.
„Þetta er bara veisla. Þetta gerist ekki skemmtilegra. Það verður troðfullt hús á Hlíðarenda á föstudaginn og tvö góð lið að berjast um að komast í úrslit. Ég mæli með því að mæta á föstudaginn.“
Spurður hvað Valsmenn þyrftu helst að bæta frá leiknum í kvöld fyrir oddaleikinn sagði Magnús Óli:
„Byrjum á því að skora úr færunum og fá kannski aðeins meira flæði, láta boltann vinna fyrir okkur. Við byrjum kannski ekki í 7 á 6 í næsta leik. Við skoðum þennan leik og finnum eitthvað út úr þessu.
Það kemur tíu til tólf mínútna kafli þar sem það dettur allt út hjá okkur. Það má eiginlega ekki gerast. Ef eitthvað dettur út þá verður eitthvað annað að vera inni. Ef það dettur allt út þá koma svona kaflar, skelfilegir kaflar sem geta tapað leiknum fyrir mann.“