Haukar eru í góðum málum í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Fram í Íslandsmóti kvenna í handbolta eftir nauman sigur á Ásvöllum í kvöld. Haukar leiða einvígið 2:0 og þurfa bara einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaeinvígi gegn Val eða ÍR.
Stefán Arnarson þjálfari liðsins var að vonum ánægður með sigurinn en sagði þó einvígið langt í frá búið þegar mbl.is ræddi við hann um leikinn.
„Það var vitað að þetta yrði jafn leikur. Fram er með gríðarlega sterkt varnarlið og sóknarlið líka. Þannig að við vissum að þetta yrði erfitt. Það sem skóp sigurinn er líklega forskotið sem við byggjum upp í byrjun seinni hálfleiks.
Við missum það niður í tvö mörk en náðum samt að halda því forskoti alveg fram í lokin sem er gríðarlega mikilvægt á móti Fram því um leið og þú missir þetta niður þá refsa þær,“ sagði Stefán.
Í lok leiks virtist allt stefna í að Fram væri að fara jafna. Þeim tókst að þétta vörnina og sóknarleikur Hauka fór að hiksta á móti þeirra varnarafbrigði. Hvað var það sem gerir það að verkum að Fram náði þessum tökum á sóknarleik Hauka?
„Það er bara eins og ég sagði. Steinunn og Berglind eru landsliðsþristar og Kristrún. Þetta er bara gríðarlega gott varnarlið. Síðan er þetta sjötti leikurinn sem við spilum við þær í vetur og þú getur ekki endalaust komið með eitthvað nýtt. En Fram gerði þetta mjög vel í kvöld en sem betur fer fundum við lausnir og skoruðum. Þess vegna unnum við,“ sagði hann.
Ef við förum yfir þessa sex leiki. Fram vinnur alla þrjá leikina í deildinni. Haukar vinna bikarúrslitaleikinn og svo fyrstu tvo leikina í úrslitakeppninni. Fyrir Hauka er þetta auðvitað frábært val á leikjum til að vinna en af hverju vinnur Fram í deild en virðist brotna í stóru leikjunum sem skipta máli?
„Fram er ekkert að brotna. Þetta eru bara tvö jöfn lið og þetta er bara stöngin inn eða stöngin út. Í fyrra þá var þetta líka þannig að við vorum í þriðja sæti og mættum þeim og vinnum einvígið 3:0. Núna er 2:0 en þetta er langt frá því að vera búið. Allir sem sáu Fram spila í dag sjá hvað þetta er sterkt lið. Þær eiga eftir að gera alvöru tilraun til að svara þessu,“ sagði Stefán.
Getur þú útskýrt af hverju það eru svona miklar sveiflur milli leikja liðanna? Þið vinnið stórsigur á útivelli og svo eins marks sigur í kvöld.
„Í leiknum á laugardag gekk allt upp hjá okkur en ekkert hjá Fram. Þessi leikur sýndi bara hvað þessi lið eru jöfn. Hver leikur í úrslitakeppni á sitt líf. Þú veist aldrei því þú gætir bæði unnið og tapað með 10 mörkum. Ég spái því að þeir leikir sem eftir eru verði svipaðir þeim sem var spilaður í kvöld,“ sagði Stefán Arnarson að lokum í samtali við mbl.is.