„Þetta er risaráðning,“ sagði Jón Halldórsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, um ráðninguna á Þóri Hergeirssyni í starf faglegs ráðgjafa afrekssviðs HSÍ.
Tilkynnt var um ráðningu Þóris á fréttamannafundi sem haldinn var á Hlíðarenda á meðan handboltaþingi stóð í dag.
„Það er ofboðslega stórt fyrir okkur hjá Handknattleikssambandinu að fá Þóri heim. Þetta er vinna sem fyrrverandi formaður sambandsins, Guðmundur B. Ólafsson og hans stjórn, setti af stað.
Í rauninni komum við sem ný stjórn inn í verkefnið til þess að fylgja því áfram. Það er það sem ég hef oft sagt, og til dæmis á þinginu í morgun, að við verðum að bera virðingu fyrir því sem á undan er farið.
Þar er búið að vinna mikið og gott starf. Í rauninni er þetta uppskeran út frá því starfi í dag,“ sagði Jón í samtali við mbl.is í dag.
Spurður hvort Þórir verði yfir fjögurra manna afreksteymi sem nú hefur verið myndað sagði Jón:
„Eins og Þórir aðhyllist þetta ætlar hann að vinna þetta út frá teymisvinnu. Þetta er fjögurra manna teymi.
Þórir Hergeirsson er faglegur ráðgjafi, Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla, Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna og Jón Gunnlaugur Viggósson sem er íþróttastjórinn okkar. Þeir fjórir munu halda utan um vinnuna.“
Hann bætti því við að samningur Þórir við HSÍ væri opinn.
„Við erum að hugsa þetta sem langtímasamband. Við erum að fara í langtímasamband og vinnum hlutina svoleiðis.“
Í hverju verður vinna afreksteymisins fólgin?
„Það sem skiptir miklu máli í svona starfi er að þetta langhlaup. Þetta er ekki eitthvað átaksverkefni til eins til þriggja ára. Eins og Þórir hefur sjálfur talað um er þetta tíu til tólf ára vegferð.
Við erum að leggja af stað. Við gerum ráð fyrir því að leikmenn og félögin muni fara að finna einhverjar breytingar strax í haust.
Við sjáum það betur þegar þessir snillingar eru búnir að setjast niður og kortleggja vinnuna sína betur, þá getum við og þeir svarað betur hver leiðin nákvæmlega verður.
Eins og báðir landsliðsþjálfararnir okkar hafa sagt erum við ekki að fara að afrita og líma norsku leiðina. Saman er þetta teymi að fara að vinna betur í íslensku leiðinni.
Íslenska leiðin er til og við erum búin að ná frábærum árangri í mörg ár í handbolta en þeir ætla að finna leiðir til þess að fínpússa hana og gera enn betur,“ sagði Jón að lokum.