Íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér sigur í C-riðli í undankeppni EM með útisigri á Bosníu, 34:25, í Sarajevó í kvöld. Lokaleikur Íslands í riðlinum verður gegn Georgíu í Laugardalshöll á sunnudag.
Ísland er með fullt hús stiga eftir fimm leiki, tíu stig. Georgía er í öðru með fjögur stig og Bosnía og Grikkland reka lestina með tvö stig.
Íslenska liðið byrjaði vel og komst í 4:0. Liðin skiptust nokkurn veginn á að skora út allan hálfleikinn eftir það. Varð munurinn mest sex mörk í hálfleiknum á meðan Bosnía jafnaði einu sinni muninn í þrjú mörk.
Þegar fyrri hálfleikurinn var allur munaði fimm mörkum, 18:13, og íslenska liðið í góðum málum, þrátt fyrir litla markvörslu og slakan varnarleik á köflum.
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn vel og náði tíu marka forskoti í fyrsta skipti þegar hann var hálfnaður, 27:17, og var þá aðeins spurning um hve stór sigur íslenska liðsins yrði.
Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks og munaði níu mörkum þegar uppi var staðið.
Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson voru markahæstir í íslenska liðinu með sjö mörk hvor. Ómar Ingi Magnússon gerði sex og þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Viggó Kristjánsson fjögur hvor.