Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með ellefu mörk er liðið gerði jafntefli við Porrino frá Spáni á útivelli, 29:29, í fyrri úrslitaleik liðanna í Evrópubikarnum í handbolta. Þórey skoraði ellefu mörk, þar af átta úr vítum.
„Miðað við aðstæður erum við nokkuð jákvæð. Jafntefli á útivelli er gott og þá er bara 0:0 í heimaleiknum. Þar erum við með okkar fólk og okkar aðstæður. Við erum sáttar við þetta en á sama tíma er margt sem þarf að laga,“ sagði Þórey.
Rúmlega 2.000 áhorfendur létu gríðarlega vel í sér heyra í Porrino í dag.
„Ég hef aldrei spilað í svona miklum látum. Þetta var rosalegt. Maður heyrði ekki dómurum, heyrði ekki í sjálfum sér eða neinum öðrum. Þetta var þvílík upplifun og virkilega skemmtilegt,“ sagði hún.
Þórey heyrði t.a.m. ekki í dómurunum þegar hún fór inn úr hornafæri löngu eftir að búið var að flauta. Fékk hún brottvísun fyrir vikið.
„Ég vissi ekki hvað var í gangi fyrr en ég fór á bekkinn. Þá áttaði ég mig á því sem hafði gerst. Það lýsir þessum aðstæðum vel,“ sagði hún.
Landsliðskonan er nokkuð sátt við frammistöðuna en liðið þarf að gera betur gegn erfiðri 3-3 vörn spænska liðsins.
„Frammistaðan var bara fín. Það sem gerist er að við náum ekki að leysa 3-3 vörnina þeirra. Við vorum svolítið hikstandi og þær komust inn í leikinn. Við höfum nægan tíma til að fara yfir þetta.“
Áhorfendurnir biðu spenntir eftir að Þórey myndi klúðra eins og einu víti í leiknum. Hún skoraði hins vegar úr öllum átta vítum sínum í leiknum.
„Í svona leikjum ertu voðalega lítið að hugsa. Þú ert svolítið á sjálfsstýringu. Þetta er svona 70 prósent sálfræðilegt. Maður þarf að vera með gott sjálfstraust, það skilar manni langmestu í lífinu,“ sagði Þórey.