„Ég hef verið í ýmsu í gegnum tíðina,“ sagði Valskonan mikla Svala Þormóðsdóttir í samtali við mbl.is. Svala er áberandi á handboltaleikjum Vals á Hlíðarenda, þar sem hún er í hinum ýmsu verkefnum á bak við tjöldin.
„Ég er í stjórn handknattleiksdeildarinnar og þar er mitt hlutverk fyrst og fremst að koma að skipulagningu og vinnu á heimaleikjum. Ég er í veitingasölu, miðasölu og held utan um þetta.“
Svala er oft á fleygiferð á Hlíðarenda og nær þá lítið að horfa á leikina. „Mér finnst mjög gaman að mæta á útileikina, þá get ég setið og horft á leikina,“ sagði hún hlæjandi.
Hún er afar ánægð með þá góðu fjölskyldustemningu sem hefur myndast í handboltanum hjá Val síðustu ár.
„Flestir, ef ekki allir, sem eru að vinna með mér hjá Val eiga börn í yngri flokkum eða börn sem eru fullorðin. Það eiga nánast allir krakka í Val sem koma að þessu. Ég nenni að standa í þessu því ég er að kynnast góðu fólki,“ sagði hún.
Svala hefur farið á þó nokkra Evrópuleiki undanfarin ár í karla- og kvennaflokki en viðtalið var tekið í Vigo á Spáni þar sem kvennaliðið mætir Porrino í fyrri leik sínum í úrslitum Evrópubikarsins í dag. Seinni leikurinn fer fram á Hlíðarenda eftir viku.
„Það eru algjör forréttindi að fá að fara á þessa leiki. Að upplifa umgjörðina og stemninguna í öðrum löndum. Það skemmir ekki þegar Valsliðin eru að skrifa söguna, bæði karla og kvenna,“ sagði hún og rifjaði síðan upp skemmtilega sögu frá því í annarri ferð til Spánar fyrr á árinu.
„Í Málaga voru ungar stelpur sem vildu fá að hitta leikmenn Vals. Þær voru með spjöld með íslenskum skilaboðum. Þá fattaði ég að ég væri að ferðast með frægu fólki. Stelpurnar biðu spenntar fyrir utan og vildu fá áritanir frá leikmönnum Vals,“ sagði hún.
Svala er spennt að fá seinni leikinn á heimavelli, þar sem Evrópubikarinn fer á loft.„Það er algjört æði. Evrópubikarinn fer á loft á Íslandi og það mun aldrei gleymast. Auðvitað vonum við að Valur vinni hann,“ sagði Svala.