Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, er spenntur fyrir því að mæta Georgíu í Laugardalshöllinni í dag þó ekki sé um þýðingarmikinn leik að ræða.
Ísland tryggði sér sigur í 3. riðli undankeppni EM 2026 á miðvikudagskvöld með öruggum sigri á Bosníu. Georgía tryggði svo annað sætið og þar með farseðil á mótið degi síðar.
„Þetta var bara fínt. Þetta var fínt heilt yfir fannst mér. Við gerðum þetta heilt yfir nokkuð vel. Þetta var alls ekki fullkomið en var þó nokkuð öruggt,“ sagði Ómar Ingi í samtali við mbl.is um sigurinn á Bosníu.
Hann sagði það létti að liðið væri búið að tryggja sér efsta sætið.
„Já, klárlega. Við vildum bara vinna þennan riðil og ég held að við höfum gert það sannfærandi. Við ætlum að klára þetta með stæl á sunnudaginn.“
Spurður hverju mætti búast við af liði Georgíu sagði Ómar Ingi:
„Ég bara veit það ekki alveg. Þeir eru með ágætis leikmenn, einn til tvo sem við höfum kannski skoðað eitthvað sérstaklega. Annars þekki ég þá ekki alveg nógu vel en við munum skoða þá.
Annars er fókusinn svolítið á okkur og hvað við erum að gera. Við ætlum að klára þetta vel á sunnudaginn, spila góðan leik og prófum kannski einhver ný atriði sem við ætlum að rúlla á. Við ætlum að klára þetta með fullu húsi stiga, það er markmiðið.“
Þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki mikla þýðingu, þar sem úrslitin í riðlinum eru ráðin, sagði hann liðið ekki munu eiga í vandræðum með að gíra sig upp fyrir leikinn.
„Þetta er landsleikur og það er alltaf gaman að spila landsleik finnst mér. Þannig að það er ekkert vesen. Vonandi er fullt hús og góð stemning. Það er góð stemning í liðinu og það er að spila vel.
Það er góður gangur í þessu og þá er þetta líka bara gaman. Það er ekkert erfitt að finna hvatninguna innra með sér. Það er bara að finna baráttuna og halda áfram,“ sagði Ómar Ingi að lokum í samtali við mbl.is.