Ísland vann Georgíu 33:21 í lokaleik undankeppni EM karla 2026 í handknattleik í Laugardalshöllinni í dag.
Íslenska liðið lauk því keppni með fullt hús stiga, 12 stig úr sex leikjum og vann riðilinn með yfirburðum. Georgía fékk 6 stig í öðru sætinu og fer einnig á EM, Grikkir fengu 4 stig og Bosníumenn ráku lestina með 2 stig.
Leikurinn í dag var aldrei spennandi og það fór aldrei á milli mála í hvað stefndi eftir að leikurinn byrjaði. Vörn Íslands var gríðarlega þétt í byrjun og fundu gestirnir nánast engar glufur. Sóknarleikur strákanna var líka góður í fyrri hálfleik en nýting á færum er eitthvað sem má setja spurningu við.
Ísland náði 10 marka forskoti í stöðunni 20:10 þegar tæpar tvær mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Georgía náði að minnka muninn í 9 mörk áður en fyrri hálfleik lauk.
Staðan í hálfleik var 20:11.
Þeir Orri Freyr Þorkelsson og Óðinn Þór Ríkharðsson skoruðu 4 mörk hvor í fyrri hálfleik og varði Viktor Gísli Hallgrímsson 8 skot, þar af eitt vítaskot.
Það þarf ekki að segja mikið um seinni hálfleikinn þar sem tölurnar tala sínu máli. Ísland náði 14 marka forskoti í stöðunni 25:11. Það verður að hrósa íslenska liðinu fyrir seiglu því liðið var búið að tryggja sér efsta sæti riðilsins fyrir þennan leik. Samt sem áður hættu strákarnir okkar aldrei.
Georgía náði að minnka muninn niður í 11 mörk í stöðunni 25:14 en þá tók íslenska liðið við sér aftur og jók muninn í 14 mörk í stöðunni 29:15. Þá fór Snorri Steinn að leyfa yngri leikmönnum að spreyta sig ásamt mönnum sem voru að koma inn eftir meiðsli.
Reynir Þór Stefánsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark þegar Ísland komst 30:17 yfir í leiknum. Það er lítið annað að segja frá þessum leik nema að Ísland vann að lokum góðan sigur á Georgíu í lokaleik sínum í undankeppni Evrópumótsins 2026.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði 8 mörk fyrir Ísland, þar af tvö úr vítum. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 15 skot, þar af eitt vítaskot. Ísak Steinsson varði 2 skot.
Giorgi Tskhovrebadze skoraði 7 mörk fyrir Georgíu og varði David Nikabadze 10 skot, þar af tvö víti. Zurab Tsintsadze varði 5 skot.