Karlalandslið Íslands í handknattleik verður í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla Evrópumótsins 2026 sem fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í janúar á næsta ári.
Góður árangur í undankeppninni tryggði Íslandi þessa stöðu en liðið vann alla sex leiki sína, síðast Georgíu í gær, 33:21, og fékk tólf stig af tólf mögulegum.
Færeyingar hafa einnig verið settir í annan styrkleikaflokk en þeir stóðu líka uppi sem sigurvegarar í sínum riðli og fengu níu stig af tólf mögulegum eftir átta marka sigur á Úkraínu í lokaumferðinni í Þórshöfn í gær.
Dregið verður í riðla í Herning í Danmörku á fimmtudaginn kemur, 15. maí, og eitt lið úr hverjum flokki fer í hvern riðil mótsins. Styrkleikaflokkarnir eru þessir:
1. flokkur: Frakkland, Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Ungverjaland og Slóvenía.
2. flokkur: Portúgal, Noregur, Ísland, Króatía, Spánn og Færeyjar.
3. flokkur: Austurríki, Holland, Svartfjallaland, Tékkland, Pólland og Norður-Makedónía.
4. flokkur: Georgía, Serbía, Sviss, Rúmenía, Úkraína og Ítalía.
Þegar liggur fyrir að Ísland verður í F-riðli í Kristianstad og getur ekki lent í riðli með Þýskalandi, sem verður í A-riðli í Herning, Danmörku, sem verður í B-riðli í Herning eða Svíþjóð sem verður í E-riðli í Malmö.
Það er því ljóst að mótherji Íslands úr 1. flokki verður Frakkland, Ungverjaland eða Slóvenía.
Ísland getur heldur ekki mætt hinum liðunum í 2. flokki en þegar liggur fyrir að Noregur leikur í C-riðli í Ósló og Færeyjar í D-riðli í Ósló.