Þegar landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson klæðist markmannstreyju Barcelona verður hann fjórði Íslendingurinn sem spilar fyrir stórliðið í Katalóníu í íþróttinni.
Viggó Sigurðsson ruddi brautina árið 1978 eftir góða spilamennsku með Víkingi og lék með Barcelona 1978 til 1980.
Gróttumaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson lék með Barcelona árin 2014 til 2016.
FH-ingurinn Aron Pálmarsson lék með Barcelona árin 2017 til 2021.
Framarinn Viktor Gísli er því í góðum félagsskap en Barcelona hefur verið stórlið í handboltanum í áratugi og raunar í þremur boltagreinum. Viggó, Guðjón Valur og Aron urðu allir spænskir meistarar með liðinu og Guðjón Valur var jafnframt í sigurliði Barcelona í Meistaradeild Evrópu.
Þegar allt er talið verður Viktor Gísli sjötti Íslendingurinn sem semur við Barcelona.
ÍR-ingurinn Eiður Smári Guðjohnsen lék með knattspyrnuliði Barcelona 2006 til 2009 og var í liðinu sem sigraði í Meistaradeildinni árið 2009 eins og frægt varð.
Haukamaðurinn Kári Jónsson var um tíma hjá Barcelona en lék ekki með aðalliði félagsins í körfuknattleik. Kári var einungis 21 árs þegar hann samdi við félagið en hinir Íslendingarnir fimm voru allir orðnir þekkt nöfn í bransanum þegar þeir fóru til Katalóníu.