Færeyjar höfðu betur gegn Svíþjóð, 27:26, í bronsleiknum á heimsmeistaramóti karla U21 árs í handbolta í Póllandi í dag.
Þetta er í fyrsta sinn sem færeyskt lið í nokkurri íþrótt vinnur til verðlauna á heimsmeistaramóti.
Færeyingar rétt misstu af sæti í úrslitaleiknum en þeir töpuðu í tvíframlengdum leik gegn Portúgal, 38:37.
Svíar voru skrefi á undan en aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum í fyrri hálfleik sem endaði 12:12.
Færeyingar áttu frábæran kafla um miðjan seinni hálfleik og komust fjórum mörkum yfir. Svíar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í eitt mark en Færeyingar héldu út og unnu leikinn 27:26.
Óli Mittún var markahæstur í færeyska liðinu með níu mörk í leiknum og er markahæsti leikmaður mótsins.
Alexander Lacok, markmaður færeyska liðsins, var valinn besti maður leiksins.