„Þetta er mjög spennandi. Ég veit ekkert um þetta lið en ég hlakka til,“ sagði Hulda Dís Þrastardóttir, leikmaður Selfoss í handbolta, en liðið mætir AEK Aþenu frá Grikklandi í fyrstu umferð í Evrópubikar kvenna í handbolta.
Fram og ÍR afþökkuðu boð um að fara í Evrópukeppni en Selfoss ákvað að taka slaginn.
„Um leið og það kom í ljós að okkur var boðið í þessa keppni þá voru allir mjög spenntir en það þurfti auðvitað eitthvað aðeins að hugsa þetta. Það kostar heilmikinn pening að taka þátt í þessu og miklar fjáraflanir sem fylgja þessu en svo var ákveðið að slá til og þetta verður örugglega mjög gaman,“ sagði Hulda í viðtali við mbl.is í dag.
Hulda er uppalin hjá liðinu sem hefur verið á mikilli uppleið síðustu ár og hefur alltaf spilað með Selfoss, að undanskildum árunum 2020 til 2022 þegar hún var hjá Val.
Selfoss vann næstefstu deild með yfirburðum tímabilið 2023/24 og eftir eitt ár sem nýliði í efstu deild er liðið mætt í Evrópukeppni.
Sástu þetta fyrir þér þegar þú komst til baka í liðið að vera mætt í Evrópukeppni ári eftir að þú varst að spila með því í næstefstu deild?
„Já. Ég er búin að hafa mikla trú á liðinu síðustu ár og við erum búnar að vera í mikilli uppbyggingu sem hefur gengið ágætlega en við viljum samt ná lengra. Okkur finnst við eiga inni og geta sýnt meira þannig að við stefnum á að taka næsta skref á þessu tímabili og að taka þátt í þessari Evrópukeppni er mikilvægur partur af því.“
Perla Ruth Albertsdóttir á von á barni og missir af stórum hluta næsta tímabils og Katla María Magnúsdóttir er að flytja til Danmerkur. Þær voru í lykilhlutverki hjá liðinu á síðasta tímabili og því mikið högg fyrir liðið að missa þær.
„Þær voru tvær af okkar bestu leikmönnum í vetur og það verður erfitt að fylla í skarðið sem þær skilja eftir sig en ég er alveg viss um að okkur tekst það og svo kemur Perla náttúrulega aftur til baka.“
Fyrri leikur liðanna er úti í Grikklandi helgina 27.-28. september og seinni heima helgina 4. og 5. október. Ekki er ljóst hvort Selfoss selji heimaleikinn sinn eða ekki en Hulda segir að það komi í ljós fljótlega.