Kostar heilmikinn pening að taka þátt

Hulda Dís Þrastardóttir
Hulda Dís Þrastardóttir Ljósmynd/Selfoss

„Þetta er mjög spenn­andi. Ég veit ekk­ert um þetta lið en ég hlakka til,“ sagði Hulda Dís Þrast­ar­dótt­ir, leikmaður Sel­foss í hand­bolta, en liðið mæt­ir AEK Aþenu frá Grikklandi í fyrstu um­ferð í Evr­ópu­bik­ar kvenna í hand­bolta.

Fram og ÍR afþökkuðu boð um að fara í Evr­ópu­keppni en Sel­foss ákvað að taka slag­inn.

Um leið og það kom í ljós að okk­ur var boðið í þessa keppni þá voru all­ir mjög spennt­ir en það þurfti auðvitað eitt­hvað aðeins að hugsa þetta. Það kost­ar heil­mik­inn pen­ing að taka þátt í þessu og mikl­ar fjár­afl­an­ir sem fylgja þessu en svo var ákveðið að slá til og þetta verður ör­ugg­lega mjög gam­an,“ sagði Hulda í viðtali við mbl.is í dag.

Hulda er upp­al­in hjá liðinu sem hef­ur verið á mik­illi upp­leið síðustu ár og hef­ur alltaf spilað með Sel­foss, að und­an­skild­um ár­un­um 2020 til 2022 þegar hún var hjá Val.

Sel­foss vann næ­stefstu deild með yf­ir­burðum tíma­bilið 2023/​24 og eft­ir eitt ár sem nýliði í efstu deild er liðið mætt í Evr­ópu­keppni.

 Sástu þetta fyr­ir þér þegar þú komst til baka í liðið að vera mætt í Evr­ópu­keppni ári eft­ir að þú varst að spila með því í næ­stefstu deild?

„Já. Ég er búin að hafa mikla trú á liðinu síðustu ár og við erum bún­ar að vera í mik­illi upp­bygg­ingu sem hef­ur gengið ágæt­lega en við vilj­um samt ná lengra. Okk­ur finnst við eiga inni og geta sýnt meira þannig að við stefn­um á að taka næsta skref á þessu tíma­bili og að taka þátt í þess­ari Evr­ópu­keppni er mik­il­væg­ur part­ur af því.“

Perla Ruth Al­berts­dótt­ir á von á barni og miss­ir af stór­um hluta næsta tíma­bils og Katla María Magnús­dótt­ir er að flytja til Dan­merk­ur. Þær voru í lyk­il­hlut­verki hjá liðinu á síðasta tíma­bili og því mikið högg fyr­ir liðið að missa þær.

„Þær voru tvær af okk­ar bestu leik­mönn­um í vet­ur og það verður erfitt að fylla í skarðið sem þær skilja eft­ir sig en ég er al­veg viss um að okk­ur tekst það og svo kem­ur Perla nátt­úru­lega aft­ur til baka.“

Perla Ruth Albertsdóttir er leikmaður Selfoss og íslenska landsliðsins.
Perla Ruth Al­berts­dótt­ir er leikmaður Sel­foss og ís­lenska landsliðsins. Ljós­mynd/​Jon For­berg

Fyrri leik­ur liðanna er úti í Grikklandi helg­ina 27.-28. sept­em­ber og seinni heima helg­ina 4. og 5. októ­ber. Ekki er ljóst hvort Sel­foss selji heima­leik­inn sinn eða ekki en Hulda seg­ir að það komi í ljós fljót­lega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert