Landsmótið drifkraftur framfara í hrossarækt

Þorvaldur Kristjánsson segir að það sé mikið af metnaðarfullu og …
Þorvaldur Kristjánsson segir að það sé mikið af metnaðarfullu og mögnuðu ræktunarfólki í landinu sem knýr starfið áfram. Ljósmynd/Aðsend

Það er landsmót í uppsiglingu í Víðidal á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks og hefur Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur og einn fremsti kynbótadómari landsins, haft í nógu að snúast í undirbúningnum.

Í lok maí hófust vorsýningar kynbótahrossa um land allt sem standa yfir til loka júní og voru um 1.200 hross skráð til dóms á tólf sýningum.

„Það eru alltaf fleiri hross skráð til dóms á landsmótsárum. Þetta er svona á pari við bestu ár hvað skráningu varðar á landsmótsári. Það er afar gleðilegt og sýnir mikinn metnað og áhuga á ræktunarstarfinu. Það er grundvöllur alls og skilar okkur betri hrossum inn í reiðhestaflóruna, betri keppnishestum og öllum þeim verðmætu hestgerðum til framtíðar. Þetta hefst allt með vel heppnaðri pörun og svo vandaðri eftirfylgni,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur kveðst spenntur fyrir komandi landsmóti og tækifærinu til þess að gera úttekt á framförum í kynbótastarfinu.

Fremstu kynbótahross landsins

Vænta má að 170 kynbótahross í einstaklingssýningum verði sýnd á landsmótinu en efstu 15 til 30 hross á vorsýningum í júní á landsvísu í hverjum flokki fá síðan ­þátttökurétt á mótinu og fer fjöldinn eftir hverjum flokki.

Á kynbótasýningum eru hrossin sýnd í átta flokkum sem er skipt eftir kyni í fjögurra, fimm, sex og sjö vetra og eldri hryssur annars vegar og stóðhesta hins vegar. Þá eru tíu efstu hrossunum í hverjum flokki á landsmóti veitt verðlaun fyrir árangur.

Að auki eru stóðhestar heiðraðir með verðlaunum fyrir afkvæmi. Á landsmóti eru veitt fyrstu verðlaun og heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Til að fá fyrstu verðlaun þurfa stóðhestar að ná 118 stigum í ­aðaleinkunn kynbótamats og eiga 15 dæmd afkvæmi.

Fyrir heiðursverðlaun eru gerðar meiri kröfur en stóðhestar þurfa einnig að hafa 118 stig en 50 dæmd afkvæmi. Sá hestur sem stendur efstur fyrir heiðursverðlaun hlýtur hinn eftirsótta Sleipnisbikar, sem er æðsta viðurkenning sem veitt er í hrossarækt.

Jafnvægi og mýkt

Íslenski hesturinn er afar fjölhæft hestakyn og miðað við mörg önnur er hesturinn nýttur á fjölbreyttan hátt. Því eru ræktunarmarkmiðin fjölbreytt en í grunninn er ­markmiðið að rækta úrvalsreiðhest sem nýtist til almennra útreiða, ferðalaga og í hinar ýmsu ­keppnisgreinar.

Þeir eiginleikar sem kynbótadómarar leita eftir hjá kynbótahestum í byggingu og ganglagi eru þættir sem skapa úrvalsgóða ­reiðhestskosti.

„Í byggingunni erum við fyrst og fremst að leita eftir jafnvægi og styrk, að hesturinn sé framhár og eigi auðvelt með að halda sér á gangtegundum og ganga í jafnvægi. Við mat á gangtegundum er í grunninn verið að leita eftir ásetugóðum reiðhestum sem eru hreingengir, eiga auðvelt með að ganga í jafnvægi og eru mjúkir á gangi,“ segir Þorvaldur.

„Þau kynbótahross sem hljóta hæstu einkunn eiga að sameina sem flesta kosti og gefa okkur allar ­þessar verðmætu hestgerðir. Þá þurfa hrossin einnig að vera skrefmikil, hreyfingafalleg og fasmikil. En lykilatriðin sem leitað er eftir eru jafnvægi og mýkt í byggingu og ganglagi.“

Metnaðarfullt ræktunarstarf stutt af öflugu kynbótakerfi hefur knúið fram mælanlegar …
Metnaðarfullt ræktunarstarf stutt af öflugu kynbótakerfi hefur knúið fram mælanlegar og miklar framfarir á síðustu öld með vaxandi hópi framúrskarandi kynbótahrossa. Ljósmynd/Hanke Peterse

Fleygir fram

Að sögn Þorvaldar hafa orðið mælanlegar og miklar erfðaframfarir í stofninum á hverju ári síðustu 20 til 30 ár.

„Það er svo mikið af metnaðarfullu og mögnuðu ræktunarfólki í landinu sem er að knýja þetta áfram. Svo er þetta stutt af góðu kynbótakerfi og þetta hefur hjálpast allt að á síðustu árum til að ná fram miklum framförum.“

Framfarirnar hafa einnig verið knúnar áfram af auknum metnaði og stöðugri þróun í reiðmennsku á íslenska hestinum.

„Öll uppbygging á hrossum hefur batnað gríðarlega á síðustu árum og áratugum. Þannig að þetta er orðið afar faglegt utanumhald á þessum bestu stöðum enda þarf það að vera til að ná miklum árangri í hrossarækt. Það er ekki nóg að vera með gott erfðaefni, það þarf að fylgja þessu vel eftir,“ segir Þorvaldur.

Uppskeruhátíð hestamanna

Spurður um mikilvægi landsmóts fyrir kynbótastarfið segir Þorvaldur það vera mikið. Landsmót sé uppskeruhátíð fyrir hestamenn til að koma saman og sjá þær stöðugu framfarir sem eiga sér stað í ræktun og reiðmennsku.

„Það er mjög mikilvægt að hugað sé vel að félagslega þættinum í kringum hrossarækt og þar koma landsmótin mjög sterkt inn. Það er mikilvægt að það sé glæsilegur vettvangur fyrir ræktendur til að stefna á með sín hross þar sem hægt er að heiðra þá fyrir sitt magnaða starf. Þannig að landsmótin skapa mikinn drifkraft inn í ræktunarstarfið og á landsmótinu tökum við stöðuna annað hvert ár, hverjar framfarirnar séu og sjáum þær sjónrænt. Einn af þessum þáttum sem eru að skapa framfarir í hrossarækt er þessi drifkraftur sem landsmótið skapar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert