Kynbótasýningar fóru af stað með látum þetta vorið og í ár hafa þrjú hross hlotið 9,0 eða hærri einkunn fyrir hæfileika í kynbótadómi.
Arney frá Ytra-Álandi undan Skýr frá Skálakoti og Álfsdótturinni Erlu frá Skák var sýnd í kynbótadómi vikuna 10.-14. júní norður á Hólum en hún er einungis fimm vetra gömul. Í fordómi jafnaði hún 16 ára gamalt met Lukku frá Stóra-Vatnsskarði og hlaut í aðaleinkunn 8,89. Arney bætti svo um betur á yfirlitssýningu og hlaut hvorki meira né minna en 9,28 fyrir hæfileika og 8,98 í aðaleinkunn. Samkvæmt Worldfeng, ættbók íslenska hestsins, er það hæsta hæfileikaeinkunn sem hryssa hefur hlotið en einungis Sindri frá Hjarðartúni hefur fengið hærri hæfileikaeinkunn eða 9,38. Sýnandi hryssunnar var Agnar Þór Magnússon en ræktandi og eigandi er Úlfhildur Ída Helgadóttir ásamt Ragnari Skúlasyni.
Hildur frá Fákshólum, undan Ölni frá Akranesi og Gnýpu frá Leirulæk, fór í dóm vikuna 10.-14. júní í Spretti í Kópavogi. Þar hlaut hún 8,91 í aðaleinkunn og var um stund hæst dæmda íslenska hryssan í heiminum. Hildur hlaut 9,03 fyrir hæfileika, þar á meðal 10 fyrir skeið. Hildur er sjö vetra gömul, ræktuð af Jakobi Svavari Sigurðssyni og er í eigu Gut Birkholz GbR. Sýnandi hryssunnar var Helga Una Björnsdóttir.
Grímar frá Þúfum, stóðhestur í eigu Mette Mannseth, fór einnig í dóm vikuna 10.-14. júní norður á Hólum. Grímar, sem er sex vetra gamall, sýndur af eiganda sínum og ræktanda, hlaut 9,01 fyrir hæfileika og 8,80 í aðaleinkunn. Grímar hlaut meðal annars 10 fyrir fet. Grímar er undan Sólon frá Þúfum og heiðursverðlaunahryssunni Grýlu frá Þúfum.