Hin ellefu ára Viktoría Huld Hannesdóttir er önnur í barnaflokki eftir forkeppni á stóðhestinum Þin frá Enni með 8,97 í einkunn.
Þetta er fyrsta landsmótið sem Viktoría Huld keppir á og kemur hún inn með stíl. Hún segir sýninguna hafa mjög gengið vel og verið skemmtileg.
Viktoría Huld á Þin ásamt fjölskyldu sinni en hann er fyrstuverðlauna hestur með 8,34 í aðaleinkunn og er undan Eldi frá Torfunesi og Sendingu frá Enni.
Viktoría Huld og Þinur hafa fylgst að í tvö ár og er vinasambandið orðið það sterkt að hann eltir hana eins og hundur og hleypur alltaf til hennar út í haga þegar hann sér til hennar.
Hún segir Þin vera mikinn ljúfling í allri umgengni og fátt sé skemmtilegra en að fara á bak honum, en Viktoría Huld sér alfarið um þjálfunina á Þin.
„Ég er bara að þjálfa hann en stundum lána ég mömmu hann,“ segir hún glettin.
Fyrir keppni fer Viktoría Huld í reiðkennslu hjá Ásmundi Erni Snorrasyni sem hjálpar henni að stilla upp parinu og prógramminu fyrir mót.
Síðan fer Þinur alltaf í sund hjá nágrönnum Viktoríu Huldar í Áskoti til að mýkja skrokkinn.
„Honum finnst það mjög gaman og sundlaugin þrífur hann mjög vel og þá þarf ég ekki að baða hann neitt.“
Milliriðill í barnaflokki fer fram á miðvikudaginn og fær Þinur aðeins að hvíla sig fyrir það. En hann fer síðan að sjálfsögðu í sund fyrir keppni og kannski líka í blástur.