Hinrik Bragason og Trú frá Árbakka komu, sáu og sigruðu í gæðingaskeiði á Landsmóti hestamanna í gærkvöldi með einkunnina 8,75. Trú frá Árbakka er heimaræktuð af Hinriki og fjölskyldu hans sem gerði sigurinn enn sætari.
Í öðru sæti var Jakob Svavar Sigurðsson á Erni-Hrepp með 8,42 og Daníel Gunnarson á Stráki frá Miðsitju hafnaði í þriðja sæti með 8,33 í einkunn.
Mikil veisla var á Hvammsvelli allan gærdaginn með keppnum í barnaflokki, B-flokki fullorðna og B-flokki ungmenna. Það má vera að veðurguðirnir hafi svikið mótsgesti en keppendur bættu það upp með glæsilegum sýningum frá morgni til kvölds.
Forkeppni í B-flokki ungmenna lauk í gærkvöldi og stendur Matthías Sigurðsson efstur með 8,91 í einkunn á Tuma frá Jarðbrú.
Einum hundraðasta á eftir Matthíasi og Tuma er Védís Huld Sigurðardóttir á Ísak frá Þjórsárbakka með 8,90. Þriðji er Jón Ársæll Bergmann og Heiður frá Eystra-Fróðholti með 8,80 í einkunn.
Gestir mega vænta áframhaldandi veisluhalda á Hvammsvelli í dag, en forkeppni í A-flokki hefst eftir hádegi og verður fram á kvöld.