Yngsti keppandinn á Landsmóti hestamanna í ár er Oliver Sirén Matthíasson en hann verður tíu ára þann 30. desember og keppti í barnaflokki á mánudaginn.
Aldur keppenda í barnaflokki miðast við almanaksárið svo þeir keppendur sem eru í barnaflokki verða tíu til þrettán á keppnisárinu. Því mátti litlu muna hjá Oliver.
Oliver hefur fylgt foreldrum sínum í hestum allt sitt líf en mamma hans, Henna Sirén, starfar sem tamningarkona og reiðkennari í hestamannafélagi Fáks.
Á síðasta ári eignaðist Oliver hestinn Glæsi frá Traðarholti og segir mamma hans að áhugi Olivers á hestamennsku hafi farið á annað stig þegar hann fékk hestinn.
Upphaflega ætluðu mamma og pabbi hans að þjálfa Glæsi með honum en þeir náðu að smella svo vel saman að Oliver hefur þjálfað hann alveg sjálfur.
„Við vorum búin að vinna í því að kveikja í áhuganum hans á hestum. Hjá systur hans Emblu kviknaði áhuginn strax en Oliver hefur samt alltaf fylgt okkur í hestum og farið á námskeið. Svo kom Glæsir og setti allt á blússandi ferð,“ segir Henna.
Oliver segir Glæsi vera mikinn karakter og sérlega montinn.
„Hann er mjög ánægður með sig og ef einhver hlutur kemur nálægt honum fer hann strax að fikta í því,“ segir Oliver
En hvað finnst þér svona skemmtilegast við hann?
„Mér finnst rosa skemmtilegt hvað hann kemst hratt,“ segir hann og glottir.
Þar fyrir utan finnst honum skemmtilegast að fara í reiðtúra á honum á veturna og segir að Glæsir sé alltaf traustur vinur sama hvaða verkefni er lagt fyrir hann.
Þegar það eru ekki fótbolta- eða taekwondoæfingar eftir skóla hjá Oliver tekur hann strætó frá Hörðuvallaskóla í Ögurhvarfið. Þaðan röltir hann á kerrustæðið á félagssvæði Fáks þar sem mamma hans sækir hann og ríða þau út saman.
Oliver þjálfar Glæsi fimm sinnum í viku en hann segist passa sig að hafa þjálfunina létta til að halda Glæsi jákvæðum.
Hvernig þjálfar þú Glæsi fyrir keppni?
„Bara æfa mikið og gera hann tilbúinn fyrir keppni. Ég er alltaf að mýkja hann svo hann verði ekki stirður. Svo passa ég mig að æfa ekki mjög lengi og gefa honum nóg af nammi.“
Fyrir utan að þjálfa Glæsi þjálfar Oliver tvo aðra hesta; Gorm sem er gamli keppnishestur mömmu hans og reiðhest systur hans, en sá hestur er mikill reynslubolti í keppni.
Oliver og Glæsir hafa verið duglegir að keppa í vetur á vetrar- og íþróttamótum. Oliver segir að sér finnist gaman að keppa en að það geti stundum verið stressandi.
Fyrir landsmót hefur Oliver verið að æfa sig með mömmu sinni en vinur þeirra Arnar Már Sigurjónsson kláraði nám á Hólum í vor og hefur verið að kenna Oliver.
„Það er frábært fyrir hann að hafa svona jákvæða strákafyrirmynd og þurfa ekki bara að hlusta á mömmu sína,“ segir Henna.
Markmið foreldranna var að tryggja að upplifunin væri fyrst og fremst skemmtileg fyrir Oliver og halda væntingum í hófi. En hann, sem er mjög tölumiðaður, setti sér það markmið að ná 8,30 í einkunn og náði hann því með 8,31.
„Mér finnst það vera skemmtilegast í keppni, ef ég næ þeirri tölu sem ég vildi fá,“ segir Oliver.