„Hestamenn eru lang skemmtilegasta fólk landsins“

Hjörtur Bergstað formaður Fáks kveðst spenntur fyrir komandi dögum.
Hjörtur Bergstað formaður Fáks kveðst spenntur fyrir komandi dögum. Ljósmynd/Jón Björnsson

Mikil veisla hefur verið á Landsmóti hestamanna síðustu daga. Mótið hefur gengið vel til þessa og hefur hestakosturinn verið magnaður.

„Þetta hefur gengið allt framar björtustu vonum. Við erum með reynslumikið fólk í öllum störfum og mikið af sjálfboðaliðum. Það hefur bara gengið mjög vel að manna það og einhvern veginn er það þannig að það eru allir búnir að hjálpa okkur,“ segir Hjörtur Bergstað formaður Fáks.

Má alltaf gera betur

Hann segir að góður andi hafi verið á mótinu til þessa og mikil velvild sé hjá mótsgestum og starfsmönnum að halda gott mót. Heilt yfir sé ánægja með mótssvæðið en alltaf sé eitthvað sem megi gera betur.

„Það eru alltaf einhverjir sem að eru ekki sáttir en það er líka til að halda okkur á tánum. Við viljum heyra það ef fólk er ósátt með eitthvað til þess að við getum brugðist við, en við höfum ekki fengið margar kvartanir til þessa.“

Spennandi dagar framundan

Hjörtur hefur haft í miklu að snúast síðustu daga og vikur og lítið getað notið þess að horfa á mótið. En hann náði að horfa á þá sem stóðu honum næst.

„Dóttir sem var að keppa og stóð sig vel, og svo á fjögurra vetra graðhest sem fór í kynbótadóm sem stóð sig líka vel. Ég held að það séu einu hrossin sem ég hef horft á, annars er maður einhvers staðar á hlaupum að gera eitthvað annað.“

Á morgun, fram á sunnudag, verða fremstu hross landsins að keppa í öllum keppnisgreinum og í kynbótadómi. Þar að auki verður slegið til veislu í Lýsishöllinni í Fáki bæði á morgun og á laugardaginn.

„Þá koma fram allra bestu skemmtikraftar landsins á morgun og á laugardaginn. Ef þið viljið smakka rjómann af íslensku hestasamfélagi þá skuluð þið koma í partíið í Víðidalnum en hestamenn eru lang skemmtilegasta fólk landsins. Svo ef þú vilt eiga ánægjulegan dag í lífi þínu þá skaltu skella þér á landsmót í Víðidal um helgina,“ segir Hjörtur að lokum.

Mótsgestir mega vænta gæðingaveislu í Víðidal um helgina.
Mótsgestir mega vænta gæðingaveislu í Víðidal um helgina. Ljósmynd/Jón Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert