Borið hefur á nokkrum fjölda af svindlsíðum á samfélagsmiðlum í tengslum við Landsmót hestamanna í ár. Þar hefur áhugafólki um landsmótið meðal annars verið boðið að kaupa streymi frá landsmótinu, en svindlararnir hafa herjað á mótsgesti undanfarnar vikur.
Landsamband hestamanna gaf í dag út tilkynningu fyrir mótsgesti vegna svindlsíðanna. Eru mótsgestir þar varaðir við og minntir á að eina Facebook-síða landsmótsins sé „Landsmot hestamanna“, hvorki með íslenskum stöfum eða ártali.
Svindlsíðurnar hafa verið sérlega áberandi á Facebook. Eru bæði mótsgestir og aðrir einstaklingar á samfélagsmiðlinum varaðir við að samþykkja allar vinabeiðnir vegna landsmóts.