„Aðalatriðið er að hafa gaman“

Guðný Dís, Elva Rún og Kristín Rut Jónsdætur ásamt stóðhestinum …
Guðný Dís, Elva Rún og Kristín Rut Jónsdætur ásamt stóðhestinum Ás frá Hofsstöðum, Garðabæ. Ljósmynd/Herdís Tómasdóttir

Systurnar Guðný Dís, Elva Rún og Kristín Rut Jónsdætur tryggðu sér allar sæti í sitthvoru flokkunum í A-úrslit á Landsmóti hestamanna í Reykjavík með glæsilegum einkunnum.

„Við erum bara mjög vel stemmdar fyrir úrslitunum. Aðalatriðið er að hafa gaman og má ekki gleyma því,“ segir Guðný Dís.

Sterkur ungmennaflokkur

Guðný Dís er 18 ára og elst af systrunum. Hún er að keppa á sínu fjórða landsmóti en í fyrsta sinn í ungmennaflokki. Hún er önnur inn í A-úrslit með 8,66 í einkunn á hestinum Hraunar frá Vorsabæ 2.

„Ungmennaflokkurinn er rosalega sterkur í ár með frábæra hesta og það er gaman að vera í baráttunni með þessum sterku hestum og knöpum í A-úrslitum,“ segir Guðný Dís.

Milliriðlar fara öðruvísi fram en forkeppni en þá þurfa knapar að sína allar gangtegundir hestsins og sveik fetið marga færa knapa í milliriðlinum í ár.

Guðný Dís og Hraunar frá Vorsabæ 2.
Guðný Dís og Hraunar frá Vorsabæ 2. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru ekki allir hestar sem feta svona vel. Þú þarft að vera með jafnar og góðar gangtegundir til þess að fara í hæstu hæðir og ná í A-úrslit. Hraunar hefur þessar frábærar gangtegundir, þær eru allar heilar þannig að það svona einkennir hann.“

Hún hefur þó landsmótssigur í fararveskinu en árið 2018 sigraði hún barnaflokk á Landsmóti hestamanna í Reykjavík á hestinum Roða frá Margrétarhofi.

„Það var geðveikt. Það kom svona aðeins á óvænt og ég bjóst ekki við því.“

Á heimaræktuðum gæðing

Elva Rún, 16 ára, keppir á hestinum Straumi frá Hofsstöðum, Garðabær en hann er heimaræktaður klár sem Elva Rún hefur þjálfað í sjö ár. Þau eru önnur inn á A-úrslit í B-flokki unglinga með einkunnina 8,71.

„Það var mjög erfitt að komast inn í A-úrslit og voru alveg svakalega háar tölur. Svo ég er bara ofboðslega stolt að vera ein af þeim,“ segir Elva Rún.

Unglingaflokkurinn í ár er virkilega sterkur en einkunnir í A-úrslitum eru frá 8,64 til 8,75 og eru sjö knapar sem ríða í A-úrslit á sunnudaginn, allt stelpur.

Elva Rún og Straumur frá Hofsstöðum, Garðabæ.
Elva Rún og Straumur frá Hofsstöðum, Garðabæ. Ljósmynd/Anna Guðmundsdóttir

„Við Straumur erum bara peppuð fyrir úrslitunum. Þetta leggst bara mjög vel í mig. Í dag getur maður farið að gíra sig upp aðeins, en mikilvægast er að halda Straumi ferskum fyrir brautina.“

Fyrsta landsmótið

Yngsta systirin, Kristín Rut, er tólf ára og reið beint í A-úrslit á merinni Flugu frá Garðabæ með 8,69 í einkunn og hreppti fjórða sætið. Þetta er fyrsta landsmót þeirra beggja, en þær hafa verið duglegar að keppa í vetur með góðum árangri.

„Ég er bara mjög spennt og það er bara sigur fyrir mig að komast inn í A-úrslit. Þetta eru mjög sterkir hestar.“

Keppendur í barnaflokki hafa farið með yfirburði í ár og er því mikið afrek fyrir hvern sem er að ríða inn í A-úrslit í þeim flokki.

Ásamt því að stunda hestamennsku af fullum krafti æfir Kristín Rut fótbolta, en hún á ekki erfitt með að velja á milli þeirra.

Hvort er skemmtilegra fótbolti eða hestar?

„Hestar,“ svarar hún hiklaust og hlær.

Kristín Rut og Fluga frá Garðabæ.
Kristín Rut og Fluga frá Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Hestar alla daga

Það er mikið keppnisskap á milli systranna, þá sérstaklega Guðnýju Dís og Elvu Rúnar, en þar sem það er stutt á milli þeirra í aldri hafa þær oft keppt á móti hvor annarri í sömu flokkum.

„Við Guðný erum alltaf í keppni hver nær hærri tölu þótt við séum í sitthvorum flokknum og nú er ég með smá forskot,“ segir Elva Rún sposk.

Keppnistímabilið hjá þeim lýkur ekki eftir landsmótið en þær stefna allar á að keppa á nokkrum mótum í sumar, þar með talið Íslandsmóti. 

Þær koma úr mikilli hestafjölskyldu og hafa verið í hestum frá blautu barnsbeini. Nú í sumar hafa elstu systurnar unnið við tamningar og Kristín Rut í reiðskólanum hjá mömmu þeirra.

Eru það svo bara Hólar í framtíðinni?

„Já,“ svara þær í kór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert