„Einstakt að hafa fengið að eiga hana“

Olil Amble ræktandi og eigandi Álfakletts ásamt Bergi Jónssyni.
Olil Amble ræktandi og eigandi Álfakletts ásamt Bergi Jónssyni. Ljósmynd/Jón Björnsson

 „Við erum rosalega glöð og stolt. Að ná heiðursverðlaunum á hesti eitt og sér er algjörlega frábært og segir mikið til um hestinn sem ræktunargrip,“ segir Olil Amble í samtali við mbl.

Olil er ræktandi og eigandi stóðhestsins Álfakletts frá Syðri-Gegnishólum sem hlýtur Sleipnisbikarinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2024.

Þetta er annar hesturinn úr hennar ræktun sem hlýtur Sleipnisbikarinn en báðir hestarnir eru undan einni afkastamestu ræktunarhryssu síðari ára, Álfadís frá Selfossi.

Sleipnisbikarinn

Sleipnisbikarinn er ein æðsta viðurkenning sem veitt er í hrossarækt og er afhentur á Landsmóti hestamanna þeim stóðhesti sem stendur efstur í kynbótamati fyrir afkvæmi.

Um er að ræða verðmættan grip en hann er gerður úr fjórum kílóum af hreinu silfri og sögu hans má rekja til valdatíma Viktoríu drottningar. Bikarinn var fyrst nýttur sem verðlaunagripur árið 1857 fyrir Malton kappreiðarnar í Yorkshire-héraði í Englandi.

Undir lok seinni heimstyrjaraldar var bikarinn seldur á uppboði til ónefnds íslensk kaupmanns. Hann var fyrst úthlutaður hérlendis til stóðhestsins Skugga frá Bjarnarnesi árið 1847 á Landbúnaðarsýningu í Reykjavík. Frá fyrsta Landsmóti hestamanna á Þingvöllum árið 1950 hefur hann verið afhentur á mótinu.

Til þess að hljóta bikarinn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði; stóðhesturinn þarf að eiga að minnsta kosti 50 dæmd afkvæmi og hafa að lágmarki 118 stig í kynbótamati.

Af fjórum stóðhestum sem hljóta heiðursverðlaun stendur Álfaklettur efstur með 132 í kynbótamati og 50 dæmd afkvæmi.

Olil Amble og Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum.
Olil Amble og Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum. Ljósmynd/Aðsend

Yfirburða ræktunargripur

Álfaklettur er fimmti hæst dæmdi stóðhestur í heimi með 8,94 í aðaleinkunn. Hann er fæddur árið 2013 og er undan heiðurshestinum Stála frá Kjarri.

„Álfaklettur fékk ekki mikla notkun fyrr en hann varð sjö vetra svo þetta er rosalega góður árangur miðað við það. Við sáum þennan möguleika að hesturinn gæti náð þessum verðlaunum svo við gerðum það sem við gátum til þess að það yrði að veruleika.“

Árið 2020 fór hann í þennan háa dóm og hækkaði eftirspurnin töluvert en eins og er á hann yfir 550 afkvæmi skráð.

„Hann virðist vera skila miklum gang hvort sem það sé í fótaburði eða skeiði. Hann er að erfa frá sér yfirburða fjórgangs og alhliðahross. Svo er virkilega lofandi að afkvæmin skila sér beint á keppnisbrautinni. Maður vill sjá að þau passi á hringvöllinn og í keppni, það er framtíðin.“

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum á fleygiferð.
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum á fleygiferð. Ljósmynd/Aðsend

Álfaklettur er næst yngsti hesturinn til að hljóta Sleipnisbikarinn á eftir bróður hans Álfi frá Selfossi undan Álfadísi sem hlaut hann tíu vetra gamall á landsmóti í Reykjavík 2012.

Greip hjörtu hestamanna

Móðir Álfakletts, Álfadís frá Selfossi, var undan stóðhestinum Adam frá Meðalfelli og merinni Grýlu frá Stangarholti.

„Adam gaf mjög framhá og falleg hross sem við leitum eftir í ræktun í dag. Það vantaði oft kraftinn og snerpuna í þau en þegar það blandaðist við kraftmikla meri þá komu algjörir gæðingar, eins og Álfadís.“

Hún steig fyrst inn í sviðsljósið árið 2000 þá fjögurra vetra gömul og vakti strax mikla athygli.

„Hún var lítil en þegar hún kom á brautina sá það enginn. Hún hafði svo mikla útgeislun sem kom að innan frá vilja til þess að sýna sig og voru margir sem sáu hana orðlausir. Fólk gleymir að hún vann ekki fjögurra vetra flokkinn en það hugsar bara þannig því hún greip svo hjörtu.“

Álfadís frá Selfossi var ein afkastamesta ræktunarhryssa síðari ára.
Álfadís frá Selfossi var ein afkastamesta ræktunarhryssa síðari ára. Ljósmynd/Aðsend

Álfadís hlaut þá í kynbótadómi 8,66 fyrir hæfileika og 7,78 fyrir sköpulag, alls 8,31 í aðaleinkunn.

Fyrstu mánuðina eftir landsmótið bárust ótal tilboð í hryssuna og hefði verið auðvelt fyrir Olil að selja hana.

„Ég myndi segja við hvern einasta mann sem er hestamaður í hjarta sínu að hugsa sig vel um áður en hann selur sinn verðmætasta ræktunargrip.“

Eftir landsmót fór Álfadís beint í ræktun og segir Olil óhugnanlegt að hugsa til þess ef svo hefði ekki verið, en þá hefðu heiðurshestarnir Álfasteinn og Álfur frá Selfossi ekki verið til.

Yfir 18 þúsund afkomendur

„Þetta eru 24 ár síðan hún var stjarna hér í Reykjavík og manni finnst það ekki vera langt síðan. Maður eignaðist hana, búin að missa hana og hún er búin að skila öllum þessum afkvæmum og enn eru dætur hennar á fullu að rækta. Ég held að þær eigi allar góða möguleika að heiðra móður sína.“

Árið 2011 hlaut Álfadís heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og hafa fjögur önnur afkvæmi undan henni hlotið heiðursverðlaun, Heilladís frá Selfossi, Álfasteinn frá Selfossi og Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum. Einnig hlaut afkomandi hennar, Spuni frá Vesturkoti, Sleipnisbikarinn árið 2018.

„Ég er viss um að það muna koma fleiri heiðurshross undan henni, þau eru á leiðinni.“

Afkvæmi hennar hafa hlotið mikilla vinsælda sem ræktunargripir á síðustu tuttugu árum út um allan heim. Þegar Álfadís féll frá árið 2022 var talið að hún ætti um 18 þúsund afkomendur í stofninum og er sú tala eflaust töluvert hærri.

„Það er einstakt að hafa fengið að eiga hana, ég veit reyndar ekki hvort maður geti átt svona hryssu, en að fá að hafa hana í okkar umsjón er ég virkilega þakklát fyrir. Mig langar bara að gera allt svo hún gleymist aldrei og fólk viti hversu merkilegur gripur hún var.“

Olil Amble, Bergur Jónsson og Elin Holst ásamt Álfadís frá …
Olil Amble, Bergur Jónsson og Elin Holst ásamt Álfadís frá Selfossi. Folaldið er alsystir Álfakletts og brúna hryssan Álfhildur undan Álfadís. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert