Elliði Snær Viðarsson er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik í vináttulandsleiknum gegn Svíum sem hófst núna klukkan 18 í Kristianstad.
Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon hafa gegnt fyrirliðastöðunni undanfarin ár, Ómar þegar Aron hefur verið fjarverandi.
Nú er hvorugur þeirra með, Ómar tekur ekki þátt á HM sem hefst í næstu viku og Aron verður ekki með í leikjunum við Svía og heldur ekki fyrstu leikjum íslenska liðsins í Zagreb.
Elliði, sem er 26 ára Eyjamaður, leikur með Gummersbach í Þýskalandi og í kvöld spilar hann sinn 51. landsleik. Elliði hefur skorað 109 mörk í 50 landsleikjum til þessa. Þar af gerði hann 42 mörk í 13 leikjum á síðasta ári.
Uppfært:
Þetta var reyndar stutt gaman hjá Elliða í kvöld því hann fékk rauða spjaldið fyrir brot eftir aðeins tæplega 20 mínútna leik.