Hafnfirðingarnir Þorkell Magnússon og Helga Huld Sigtryggsdóttir verða á meðal áhorfenda á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi og hefst í næstu viku.
Sonur þeirra og vinstri hornamaðurinn Orri Freyr er á leið á sitt annað stórmót með íslenska karlalandsliðinu en liðið leikur í G-riðli keppninnar í Zagreb ásamt Slóveníu, Grænhöfðaeyjum og Kúbu.
Dóttir þeirra og systir Orra, Elín Klara, var markahæsti leikmaður Íslands á Evrópumótinu í Austurríki, Sviss og Noregi sem fram fór í nóvember og desember á síðasta ári og voru Þorkell og Helga einnig á meðal áhorfenda á því móti.
„Þetta eru tvö stórmót í röð á stuttum tíma og því fylgja ágætis útgjöld,“ sagði Elín Klara í léttum tón í samtali við mbl.is.
„Mamma og pabbi styðja alltaf mjög þétt við bakið á okkur og hafa alltaf gert. Þeirra stuðningur hefur verið algjörlega ómetanlegur og við værum ekki á þeim stað sem við erum á í dag án þeirra. Við erum bæði virkilega þakklát fyrir það,“ sagði Elín Klara en er hún sjálf á leiðinni til Króatíu?
„Ég er svona að skoða það. Skólinn var að byrja aftur hjá mér eftir jólafrí og það er nóg af leikjum framundan líka hjá okkur í Haukum. Það væri gaman að ná einum leik en það þarf að koma betur í ljós.
Annars er ég mjög spennt fyrir mótinu og þetta var flottur leikur hjá þeim gegn Svíunum. Orri hefur staðið sig ótrúlega vel með Sporting á tímabilinu og ég hef mikla trú á honum. Ég samgleðst honum mikið að vera kominn á þann stað sem hann er á í dag,“ bætti Elín Klara við í samtali við mbl.is.
Ítarlegt viðtal við Elínu Klöru má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.