Ágætis útgjöld fyrir foreldrana úr Hafnarfirði

Systkinin Elín Klara Þorkelsdóttir og Orri Freyr Þorkelsson.
Systkinin Elín Klara Þorkelsdóttir og Orri Freyr Þorkelsson. Ljósmynd/Jon Forberg/Eggert Jóhannesson

Hafnfirðingarnir Þorkell Magnússon og Helga Huld Sigtryggsdóttir verða á meðal áhorfenda á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi og hefst í næstu viku.

Sonur þeirra og vinstri hornamaðurinn Orri Freyr er á leið á sitt annað stórmót með íslenska karlalandsliðinu en liðið leikur í G-riðli keppninnar í Zagreb ásamt Slóveníu, Grænhöfðaeyjum og Kúbu.

Dóttir þeirra og systir Orra, Elín Klara, var markahæsti leikmaður Íslands á Evrópumótinu í Austurríki, Sviss og Noregi sem fram fór í nóvember og desember á síðasta ári og voru Þorkell og Helga einnig á meðal áhorfenda á því móti.

Þakklát foreldrum sínum

„Þetta eru tvö stórmót í röð á stuttum tíma og því fylgja ágætis útgjöld,“ sagði Elín Klara í léttum tón í samtali við mbl.is.

„Mamma og pabbi styðja alltaf mjög þétt við bakið á okkur og hafa alltaf gert. Þeirra stuðningur hefur verið algjörlega ómetanlegur og við værum ekki á þeim stað sem við erum á í dag án þeirra. Við erum bæði virkilega þakklát fyrir það,“ sagði Elín Klara en er hún sjálf á leiðinni til Króatíu?

Væri gaman að ná leik

„Ég er svona að skoða það. Skólinn var að byrja aftur hjá mér eftir jólafrí og það er nóg af leikjum framundan líka hjá okkur í Haukum. Það væri gaman að ná einum leik en það þarf að koma betur í ljós. 

Annars er ég mjög spennt fyrir mótinu og þetta var flottur leikur hjá þeim gegn Svíunum. Orri hefur staðið sig ótrúlega vel með Sporting á tímabilinu og ég hef mikla trú á honum. Ég samgleðst honum mikið að vera kominn á þann stað sem hann er á í dag,“ bætti Elín Klara við í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Elínu Klöru má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert