Gamla ljósmyndin: Sjónvarpsmaðurinn og þjálfarinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sjón­varps­maður­inn kunni Ein­ar Örn Jóns­son og Rún­ar Sig­tryggs­son, þjálf­ari Leipzig í þýsku Bundeslig­unni, fall­ast hér í faðma á sig­ur­stundu á Ásvöll­um í Hafnar­f­irði. Voru þeir þá sam­herj­ar í firna­sterku liði Hauka sem varð Íslands­meist­ari um vorið 2001 eft­ir eft­ir­minni­lega úr­slitarimmu við KA. 

Mynd­ina tók Árni Sæ­berg þegar til­finn­ing­arn­ar flæddu eft­ir sig­ur Hauka á Val í odda­leik í undanúr­slit­um 29:27 en Árni mynd­ar enn fyr­ir Morg­un­blaðið og mbl.is. Birt­ist mynd­in í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins 24. apríl 2001.

Rún­ar skoraði átta mörk í leikn­um og var í lyk­il­hlut­verki þegar Hauk­ar sneru leikn­um sér í hag á lokakafl­an­um sam­kvæmt um­fjöll­un Morg­un­blaðsins um leik­inn. Þess má geta að þarna er íþrótta­hús Hauka á Ásvöll­um ný­komið til sög­unn­ar en ári áður fögnuðu Hauk­ar sigri á Íslands­mót­inu í íþrótta­hús­inu við Strand­götu. 

Ein­ar Örn og Rún­ar áttu það sam­eig­in­legt að vera mjög öfl­ug­ir varn­ar­menn og hand­an við hornið voru góðir tím­ar hjá þeim í bolt­an­um. Báðir voru þeir í stóru hlut­verki þegar Ísland lék um verðlaun á EM 2002 sem og á HM 2003 þegar Ísland hafnaði í 7. sæti. Urðu þeir báðir at­vinnu­menn sum­arið 2002.

Fram und­an er vænt­an­lega törn hjá Ein­ari við að lýsa leikj­um Íslands í sjón­varpi á HM í hand­knatt­leik, eins og hann hef­ur gert á stór­mót­um um langa hríð, en Rún­ar get­ur notað HM-fríið til að velta fyr­ir sér síðari hluta tíma­bils­ins í Þýskalandi. 

Rún­ar kem­ur frá Ak­ur­eyri og vakti fyrst at­hygli í vel mönnuðu liði Þórs á fyrri hluta tí­unda ára­tug­ar­ins. Hér heima lék hann einnig með Val, Vík­ingi og Hauk­um en er­lend­is með Ciu­dad Real á Spáni og með Göpp­ingen, Wal­lau Massen­heim og Eisenach. Með Ciu­dad Real vann hann EHF-bik­ar­inn árið 2003 en liðið heit­ir núna Atlético de Madrid. 

Rún­ar hef­ur áður þjálfað EHV Aue, Bal­ingen og Eisenach í Þýskalandi og Ak­ur­eyri, Stjörn­una og Hauka hér heima. 

Ekki fer eins mikl­um sög­um af þjálf­ara­hæfi­leik­um Ein­ars en hann var mjög far­sæll hægri hornamaður með Val og Hauk­um hér heima og er­lend­is lék hann með Wal­lau Massen­heim og Mind­en í Þýskalandi og Tor­revieja á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert