Gamla ljósmyndin: Sjónvarpsmaðurinn og þjálfarinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Sjónvarpsmaðurinn kunni Einar Örn Jónsson og Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Leipzig í þýsku Bundesligunni, fallast hér í faðma á sigurstundu á Ásvöllum í Hafnarfirði. Voru þeir þá samherjar í firnasterku liði Hauka sem varð Íslandsmeistari um vorið 2001 eftir eftirminnilega úrslitarimmu við KA. 

Myndina tók Árni Sæberg þegar tilfinningarnar flæddu eftir sigur Hauka á Val í oddaleik í undanúrslitum 29:27 en Árni myndar enn fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Birtist myndin í íþróttablaði Morgunblaðsins 24. apríl 2001.

Rúnar skoraði átta mörk í leiknum og var í lykilhlutverki þegar Haukar sneru leiknum sér í hag á lokakaflanum samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn. Þess má geta að þarna er íþróttahús Hauka á Ásvöllum nýkomið til sögunnar en ári áður fögnuðu Haukar sigri á Íslandsmótinu í íþróttahúsinu við Strandgötu. 

Einar Örn og Rúnar áttu það sameiginlegt að vera mjög öflugir varnarmenn og handan við hornið voru góðir tímar hjá þeim í boltanum. Báðir voru þeir í stóru hlutverki þegar Ísland lék um verðlaun á EM 2002 sem og á HM 2003 þegar Ísland hafnaði í 7. sæti. Urðu þeir báðir atvinnumenn sumarið 2002.

Fram undan er væntanlega törn hjá Einari við að lýsa leikjum Íslands í sjónvarpi á HM í handknattleik, eins og hann hefur gert á stórmótum um langa hríð, en Rúnar getur notað HM-fríið til að velta fyrir sér síðari hluta tímabilsins í Þýskalandi. 

Rúnar kemur frá Akureyri og vakti fyrst athygli í vel mönnuðu liði Þórs á fyrri hluta tíunda áratugarins. Hér heima lék hann einnig með Val, Víkingi og Haukum en erlendis með Ciudad Real á Spáni og með Göppingen, Wallau Massenheim og Eisenach. Með Ciudad Real vann hann EHF-bikarinn árið 2003 en liðið heitir núna Atlético de Madrid. 

Rúnar hefur áður þjálfað EHV Aue, Balingen og Eisenach í Þýskalandi og Akureyri, Stjörnuna og Hauka hér heima. 

Ekki fer eins miklum sögum af þjálfarahæfileikum Einars en hann var mjög farsæll hægri hornamaður með Val og Haukum hér heima og erlendis lék hann með Wallau Massenheim og Minden í Þýskalandi og Torrevieja á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert