Arnar Freyr Arnarsson, línumaður Melsungen og íslenska landsliðsins í handknattleik, verður frá keppni næstu sex til tólf vikurnar.
Þetta staðfesti hann í samtali við RÚV en Arnar, sem er 28 ára gamall, tognaði aftan í læri í vináttulandsleik Íslands og Svíþjóðar í Kristianstad í Svíþjóð á fimmtudaginn í síðustu viku.
Hann þurfti af þeim sökum að draga sig úr leikmannahópi íslenska liðsins og var Sveinn Jóhannsson, leikmaður Kolstad í Noregi, kallaður inn í hópinn í stað Arnars.
Arnar Freyr kom aftur til Íslands í fyrradag og fór í skoðun hjá Örnólfi Valdimarssyni, lækni landsliðsins, sem staðfesti að hann yrði frá næstu sex til tólf vikurnar.