Frakkland og Ítalía tryggðu sér í kvöld sæti í milliriðli á HM 2025 í handbolta karla með öruggum sigrum í riðlum sínum. Ítalía fer í milliriðil 1 og Frakkland í milliriðil 2.
Frakkland lagði Kúveit með 24 marka mun, 43:19, í C-riðli og Ítalía vann öruggan sigur á Alsír, 32:23, í B-riðli.
Bæði Frakkar og Ítalía eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki í riðlum sínum.
Hjá Frakklandi var Nedim Remili markahæstur með sex mörk. Dika Mem og Thibaud Briet bættu við fimm mörkum hvor. Saif Aldawani var markahæstur hjá Kúveit með fimm mörk.
Hjá Ítalíu var Lep Prantner markahæstur með sjö mörk. Messaoud Berkous var markahæstur hjá Alsír með sex mörk.
Spánn vann öruggan sigur á Síle í fyrsta leik F-riðils 31:22.
Daniel Fernández Jiménez skoraði fimm mörk fyrir Spán. Ian Tarrafeta Serrano, Carlos Álvarez Dominguez og Imanol Garciandia Alustiza bættu við fjórum mörkum hver.
Esteban Salinas og Erwin Feuchtmann skoruðu fimm mörk fyrir Síle.