Leikstjórnendur íslenska liðsins eru í heimsklassa

Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. mbl.is/Eyþór

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Grænhöfðaeyjum í fyrsta leik sínum í G-riðli heimsmeistaramótsins í Zagreb í kvöld en mótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.

Leikstjórnendur íslenska liðsins, þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason, eru báðir á meðal færustu leikstjórnenda heims í dag en Gísli leikur með Þýskalandsmeisturum Magdeburg á meðan Janus er samningsbundinn Pick Szeged í Ungverjalandi.

Elliði Snær Viðarsson – 18

Elliði Snær, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Gummersbach í þýsku 1. deildinni en hann er uppalinn hjá ÍBV í Vestmannaeyjum.

Elliði Snær lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð 2019 en alls á hann að baki 52 landsleiki þar sem hann hefur skorað 113 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður fimmta stórmót Elliða.

Einar Þorsteinn Ólafsson – 27

Einar Þorsteinn, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni en hann er uppalinn hjá Val á Hlíðarenda.

Varnarmaðurinn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Færeyjum í nóvember árið 2023 í Laugardalshöllinni. Hann á að baki 16 landsleiki og fimm mörk. Hann er á leið á sitt annað stórmót með íslenska landsliðinu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson – 10

Gísli Þorgeir, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn þýska stórliðinu Magdeburg en hann gekk til liðs við félagið frá Kiel árið 2020.

Gísli Þorgeir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Svíþjóð árið 2017 en alls á hann að baki 64 landsleiki þar sem hann hefur skorað 142 mörk. Heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi verður sjötta stórmót Gísla Þorgeirs.

Janus Daði Smárason – 3

Janus Daði, sem er þrítugur, er samningsbundinn Pick Szeged í Ungverjalandi en hann er uppalinn á Selfossi.

Janus Daði lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Úkraínu í undankeppni EM í Sumy árið 2016 en alls á hann að baki 88 landsleiki þar sem hann hefur skorað 150 mörk. Hann er á leið á sitt áttunda stórmót með íslenska liðinu.

Sveinn Jóhannsson – 5

Sveinn, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Noregsmeisturum Kolstad en hann gekk til liðs við félagið frá Minden í Þýskalandi síðasta sumar.

Sveinn lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2019 en alls á hann að baki 15 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 24 mörk. Línumaðurinn er á leið á sitt annað stórmót með íslenska landsliðinu.

Ýmir Örn Gíslason – 11

Ýmir, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn Göppingen í þýsku 1. deildinni en hann gekk til liðs við félagið síðasta sumar eftir fjögur ár í herbúðum Rhein-Neckar Löwen.

Ýmir lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Noregi árið 2017 en alls á hann að baki 94 landsleiki þar sem hann hefur skorað 39 mörk. Hann er á leið á sitt áttunda stórmót með landsliðinu.

Umfjöllunina má sjá í heild sinni í HM-blaði Morgunblaðsins sem kom út þriðjudaginn 14. janúar eða með því að smella hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert