„Það voru jákvæðir leikir og við náðum að spila okkur enn þá betur saman,“ sagði Teitur Örn Einarsson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við mbl.is um leiki Íslands og Svíþjóðar í undirbúningi fyrir HM.
„Það var mikilvægt að fá alvöru próf stuttu fyrir mót á móti góðu liði eins og því sænska. Það var margt jákvætt í báðum leikjum en líka hlutir sem við þurfum að laga. Til þess eru þessir leikir; til að vinna hvað vantar upp á og fínpússa ákveðna hluti,“ sagði hann.
Teitur hefur ekki átt fast sæti í íslenska liðinu þar sem samkeppnin um hægri skyttustöðuna er gríðarleg. Selfyssingurinn kemur inn fyrir sveitunga sinn Ómar Inga Magnússon sem er meiddur.
„Mér finnst ég hafa komið ágætlega inn í þetta. Ég er að finna minn stað í liðinu. Ég skýt meira fyrir utan en Ómar og ég er að koma mér í rétt svæði til að negla. Ég þarf að finna taktinn með gaurum sem ég spila ekki með á hverjum einasta degi. Mér finnst það ganga vel. Þetta lítur ágætlega út og mér líður vel inni á vellinum,“ sagði hann.
Arnar Freyr Arnarsson missir einnig af mótinu vegna meiðsla og Aron Pálmarsson missir af fyrstu leikjum þess sömuleiðis.
„Við höfum brugðist mjög vel við þessum skellum. Það var vont að missa þá en við erum með góða leikmenn sem þyrstir í að fá stærra tækifæri. Ég finn að mönnum langar að taka meiri ábyrgð og gera hlutina. Það væri auðvitað gott að hafa þá með en þetta er ekki of neikvætt. Við þurfum allir að stíga upp og sýna hversu mikið okkur langar að ná árangri,“ sagði Teitur, sem er staðráðinn í að sanna sig.
„Ég er sjálfur í rosalega harðri samkeppni í minni stöðu í landsliðinu. Það er lúxusvandamál fyrir Ísland að eiga svona margar góðar hægri skyttur.
Ég er með sjálfstraust og ég veit hversu góður ég er í handbolta. Ég veit hvað ég ætla að gera á þessu móti og ég ætla að vera með kassann úti og ekki gefa neitt eftir.“