Snorri ósáttur við fyrirliðann

Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég er bara sáttur. Það er gott að vera kominn í gang,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska karlalandsliðsins eftir stórsigur á Grænhöfðaeyjum, 34:21, í G-riðli HM í handbolta í Zagreb í kvöld.

„Þetta var stór sigur, öruggur sigur og leikurinn svo sem búinn í hálfleik. Auðvitað hefði ég alveg viljað sjá liðið spila betur í seinni hálfleik en það eru alls konar hlutir sem spila inn í það.

Þeir voru að reyna að drepa leikinn þrátt fyrir að vera tíu mörkum undir, spiluðu hægt og leiðinlega og dómarinn leyfði þeim það. Við dettum þá kannski aðeins niður en einhver partur af því er líka að við þurfum að rúlla.

Við þurfum að hvíla menn og Elliði með rautt spjald. Við spiluðum í einhverri uppstillingu sem við erum ekkert vanir að gera. Við mættum nýta betur færin og fækka töpuðu boltunum í seinni hálfleik en ég er bara sáttur,“ sagði Snorri Steinn við mbl.is eftir leik.

Ekki boðlegt

Landsliðsþjálfaranum fannst íslenska liðið spila betur í fyrri hálfleik.

„Mér fannst við bara vera mjög einbeittir og grimmir, fínir varnarlega og keyra vel í bakið á þeim. Við vorum skarpir og það var það sem ég kallaði eftir.

Að vera ekkert að bíða eftir því að þeir köstuðu frá sér sigrinum, ég vildi bara taka þennan sigur og mér fannst mikilvægt hvernig strákarnir gerðu það,“ sagði hann.

Spurður út í rauða spjaldið sem Elliði Snær Viðarsson fyrirliði fékk í fyrri hálfleik sagði Snorri Steinn:

„Ég á eftir að sjá þetta aftur en það segir sig sjálft að það er ekki boðlegt að fá rautt spjald nánast tvo leiki í röð, það er mjög einfalt. Ég held að þetta hafi verið rautt spjald og það er eitthvað sem við þurfum að laga af því að hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur.

Eins og ég kom inn á áðan þá breytti þetta allri róteringu á liðinu í seinni hálfleik. Ég náði klárlega ekki að rúlla eins og ég vildi. Elvar og Ýmir spiluðu meira en ég ætlaði mér að láta þá gera.“

Slökum ekki á

Næsta verkefni er gegn Kúbu á laugardag.

Hvort er Kúba eða Grænhöfðaeyjar sterkari andstæðingur?

„Ég sá ekki Slóveníu - Kúbu, ég viðurkenni það. Mér fannst það ekki við hæfi að vera að velta því fyrir mér fyrir leikinn við Grænhöfðaeyjar. Nú förum við í þá vinnu. Slóvenía vann örugglega og ég geri ráð fyrir því að þeir hafi mætt grimmir og einbeittir til leiks.

Þeir eru náttúrlega með betra lið. En fyrir mér snýst þetta um að gera hlutina vel, af krafti, einbeitingu og virðingu. Við erum á HM og erum að berjast fyrir einhverjum hlutum og þá slakar maður ekki á,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert