Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, er spenntur fyrir leik Íslands og Grænhöfðaeyja í kvöld en um fyrsta leik heimsmeistaramótsins er að ræða.
„Ef við ætlum að ná árangri á þessu móti verður leikurinn að vinnast. Ég nálgast leikinn samt ekki þannig að við eigum að vinna hann og þetta er eitthvað formsatriði. Við vinnum leikinn ef við erum góðir og nálgumst þetta af einbeitingu og virðingu.
Þú þarft alltaf að kalla fram einhverja frammistöðu og þú vilt alltaf fá góða frammistöðu í fyrsta leik og líða vel með eitthvað. Það er lykilatriði. Að menn séu klárir og gera þetta af krafti er lágmarkskrafa og svo þurfum við að bæta okkar gæðum ofan á það,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í gær.
Íslenska liðið er sérlega vel mannað í hornastöðunum og með fjóra mjög góða hornamenn, tvo í hvoru horni.
„Við erum með fjóra frábæra hornamenn og ég treysti þeim öllum til að spila 60 mínútur. Ég treysti þeim líka öllum að koma inn á og standa sig. Það er ekki mikill höfuðverkur en auðvitað er fínt ef einhver tekur sig til og skorar tíu mörk. Við sjáum til hvort einhverjir spila allan leikinn á morgun og svo einhverjir aðrir næsta leik,“ sagði Snorri.
Ísland tryggir sér væntanlega úrslitaleik um toppsæti riðilsins við Slóveníu með sigri á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjunum.
„Fyrir mína parta hef ég náð að einbeita mér að þessum fyrsta leik. Það á margt eftir að gerast áður en kemur að þessum Slóveníuleik. Það þarf fullt að ganga upp til að það verði úrslitaleikur. Ég vill fá frammistöðu og sjá blóð á tönnunum hjá mönnum. Ég vil að þeir spili þetta eins og þetta séu þeirra síðustu leikir,“ sagði Snorri.