Samkvæmt Alþjóða handknattleikssambandinu, IHF, voru um 850 áhorfendur á leik Íslands og Grænhöfðaeyja í G-riðli heimsmeistaramótsins í Zagreb í Króatíu í gær.
Leiknum lauk með þrettán marka sigri Íslands, 34:21, en Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk.
Blaðamaður mbl.is og Morgunblaðsins, Jóhann Ingi Hafþórsson, er staddur í Zagreb þar sem hann fylgir eftir íslenska liðinu en hann lýsti leiknum í beinni textalýsingu á vef mbl.is í gær.
Þá er Eyþór Árnason, ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins, einnig staddur í Zagreb til þess að fylgja eftir íslenska liðinu fyrir miðla Árvakurs.
Saman töldu þeir um 300 áhorfendur í stúkunni í Zagreb í gær og hafa aðrir miðlar, sem eru í Zagreb að fjalla um mótið, greint frá því að áhorfendatölur á HM hafi verið stórlega ýktar í fyrstu leikjum mótsins.