Björgvin: Meina það frá dýpstu hjartarótum

Björgvin Páll Gústavsson ræðir við mbl.is.
Björgvin Páll Gústavsson ræðir við mbl.is. mbl.is/Eyþór Árnason

Björgvin Páll Gústavsson fagnar fertugsafmæli sínu í maí en þrátt fyrir það er hann hvergi nærri hættur að hrella sóknarmenn andstæðinganna. Markvörðurinn ætlar ekki að leggja handboltaskóna á hilluna í bráð.

„Markmiðið er að halda áfram á meðan ég hef enn gaman að og þegar það er þörf fyrir mig hérna. Ég held eitthvað áfram því mér líður ekki eins og ég sé á síðustu metrunum.

Ég hef sloppið vel við meiðsli og það hefur gengið vel í þessi ár. Ég er ekkert að hugsa um að hætta. Ég tek eitt ár í einu og við sjáum til,“ sagði Björgvin í samtali við mbl.is frá hóteli landsliðsins í Zagreb, þar sem riðill Íslands á HM fer fram.

Björgvin Páll Gústavsson í leik Íslands og Grænhöfðaeyja.
Björgvin Páll Gústavsson í leik Íslands og Grænhöfðaeyja. mbl.is/Eyþór Árnason

Björgvin hefur leikið með Val síðustu ár og er í starfi sem markaðsstjóri félagsins meðfram því að verja mark liðsins. Þá á hann fjögur börn sem öll æfa með Hlíðarendafélaginu.

„Handbolti er risastór partur af því hver ég er. Ég er markaðsstjóri hjá Val og börnin mín fjögur eru öll að æfa með Val. Þau eru með 25 æfingar á viku og svo bætast mínar æfingar við. Ég er meira og minna allan daginn í Valsheimilinu.

Á meðan að þetta er eins skemmtilegt og þetta er þá held ég áfram. Ég meina það frá dýpstu hjartarótum að mér finnst enn þá jafn gaman að mæta á æfingar, hvort sem það er hádegisæfing með Val eða landsliðsæfing á stórmóti,“ sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert