Ísland og Slóvenía mætast í hreinum úrslitaleik um toppsæti G-riðils á HM karla í handbolta klukkan 19.30 annað kvöld. Ísland vann sannfærandi sigra á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjum sínum en ljóst er að leikurinn við Slóveníu verður mun erfiðari.
„Það var gott og mikilvægt að klára þessa fyrstu leiki svona. Ég ber mikla virðingu fyrir Slóveníu og mér finnst gaman að horfa á þá spila.
Það var mjög gaman að fylgjast með þeim á Ólympíuleikunum þar sem þeir náðu frábærum árangri (4. sæti). Þeir eru með geggjaða leikmenn í öllum stöðum.
Þeir eru fjölhæfir, fjölbreyttir og það er fáránlega mikið sem við þurfum að fara yfir. Undirbúningurinn verður allt annars eðlis en hann hefur verið,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson við mbl.is.