Ísland mætir Egyptalandi í fyrsta leik sínum í milliriðli fjögur á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Zagreb á miðvikudaginn kemur, 22. janúar.
Ísland endaði í efsta sæti G-riðils með 6 stig og tekur því fjögur stig með sér í milliriðla. Á sama tíma enduðu Egyptar í efsta sæti H-riðils með 6 stig og taka því fjögur stig með sér í milliriðilinn.
Næsti leikur Íslands í milliriðli verður svo gegn heimamönnum í Króatíu, þann 24. janúar, og lokaleikur Íslands í milliriðli er gegn Argentínu þann 26. janúar en milliriðill Íslands verður leikinn í Zagreb.
Takist liðinu að komast áfram í 8-liða úrslitin munu þau fara fram í Zagreb í Króatíu en undanúrslit keppninnar, sem og úrslitaleikurinn, verða leikin í Bærum í Noregi.
Leikir Íslands í milliriðli:
22. janúar: Ísland – Egyptaland, 19.30
24. janúar: Ísland – Króatía, 19:30
26. janúar: Ísland – Argentína, 14:30