Kannski stutt í endalokin

Aron Pálmarsson er á seinni metrum ferilsins.
Aron Pálmarsson er á seinni metrum ferilsins. mbl.is/Eyþór Árnason

Ísland leikur hreinan úrslitaleik um efsta sæti G-riðilsins á HM karla í handbolta við Slóveníu í kvöld. Með sigri fer íslenska liðið með fjögur stig í milliriðil og á góðan möguleika á að fara í átta liða úrslit.

Tap þýðir tvö stig í milliriðil og erfiðara verk fram undan. Slóvenska liðið er býsna gott og endaði í fjórða sæti á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar. Slóvenum dugar jafntefli þar sem þeir hafa skorað fleiri mörk en Íslendingar í tveimur fyrstu leikjunum, en liðin eru bæði með fjögur stig og sömu markatölu.

„Þetta slóvenska lið er skemmtilegt. Þeir spila yfirtöluna öðruvísi og eru með góða og skarpa handboltamenn sem eru með góðar tímasetningar. Þú mátt ekki slaka á í eina vörn. Þú verður að vera á fullu allan tímann, annars refsa þeir,“ sagði Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði við Morgunblaðið. 

Hann var í hópnum sem vann bronsverðlaun á EM 2010 en íslenska liðið hefur ekki unnið til verðlauna síðan.

„Ég er fáránlega tilbúinn til að ná langt á þessu móti. Kannski hefur það eitthvað með aldurinn að gera. Kannski er stutt í endalokin og eitthvert svoleiðis kjaftæði, þótt mér líði ekki þannig. Ég mun spila eins lengi og ég get til að hjálpa liðinu. Hópnum líður vel saman og okkur finnst við vera á þeim stað að við megum fara að gera meira á þessum mótum,“ sagði Aron.

Viðtalið má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert