Þetta er þrusu handboltalið

Orri Freyr Þorkelsson fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í Zagreb.
Orri Freyr Þorkelsson fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í Zagreb. mbl.is/Eyþór Árnason

Orri Freyr Þorkelsson, vinstri hornamaður íslenska landsliðsins í handbolta, er sáttur við frammistöðu Íslands á HM til þessa en liðið hefur unnið stórsigra á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í tveimur fyrstu leikjunum.

„Þetta hefur verið flott hjá okkur. Það er fínt að vinna með svona miklum mun eins og við gerðum í gær. Við gerðum þetta fagmannlega. Að sjálfsögðu er gott að byrja á tveimur sigrum. Það gefur okkur alltaf eitthvað gott. Við erum spenntir fyrir framhaldinu,“ sagði Orri við mbl.is.

Ísland leikur mikilvægan leik við Slóveníu í kvöld þar sem toppsæti G-riðils er í boði og möguleiki á að taka fjögur stig með sér í milliriðil.

Orri Freyr Þorkelsson.
Orri Freyr Þorkelsson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það eru allir ferskir og klárir í bátana. Það verður spennandi að taka á þessu slóvenska liði á morgun. Það verður hörkuleikur. Við erum búnir að undirbúa okkur og við verðum klárir. Þeir eru með marga léttleikandi og góða leikmenn.

Það eru færir handboltamenn í þessu liði. Þeir eru með ólíka leikmenn líka. Þeir eru með menn sem geta skotið fyrir utan og svo góða blöndu. Línumaðurinn þeirra er stór og stæðilegur og svo er hægri hornamaðurinn þeirra eldsnöggur. Þetta er þrusu handboltalið,“ sagði Orri, sem er spenntur fyrir verkefninu.

„Maður er spenntur að halda áfram með mótið og komast í svona leik. Þetta verður erfitt en við erum með lið til að takast á við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert