Tvær sviðsmyndir Íslands á HM

Ísland mætir Slóveníu í kvöld og niðurröðun milliriðilsins ræðst af …
Ísland mætir Slóveníu í kvöld og niðurröðun milliriðilsins ræðst af úrslitum leiksins. mbl.is/Eyþór Árnason

Undanriðlunum á heimsmeistaramóti karla í handknattleik lýkur í kvöld þegar Ísland mætir Slóveníu í lokaumferð G-riðilsins í Zagreb.

Á sama tíma mætast Svíar og Spánverjar í F-riðlinum í Bærum í Noregi, og að þeim leikjum loknum liggja milliriðlar þrjú og fjögur endanlega fyrir.

Ísland verður í milliriðli fjögur ásamt Egyptalandi, Króatíu, Argentínu, Slóveníu og svo annað hvort Grænhöfðaeyjum eða Kúbu. Liðin taka innbyrðis viðureignirnar með sér.

Íslenska liðið tekur því með sér úrslitin úr leiknum við Slóveníu í kvöld og úrslitin gegn sigurvegaranum úr viðureign Grænhöfðaeyja og Kúbu. Ísland hefur því keppni í milliriðli með tvö, þrjú eða fjögur stig.

Úr H-riðlinum kemur Egyptaland með 4 stig, Króatía með 2 stig og Argentína án stiga.

Leikirnir í milliriðlinum verða á miðvikudag 22. janúar, föstudag 24. janúar og sunnudag 26. janúar. Niðurröðunin ræðst af því hvort Ísland eða Slóvenía vinnur G-riðilinn.

Ef Ísland vinnur riðilinn verður dagskráin svona:

22. janúar: Ísland - Egyptaland (14.30)
24. janúar: Ísland - Króatía (17.00)
26. janúar: Ísland - Argentína (19.30)

Ef Slóvenía vinnur riðilinn verður dagskráin svona:

22. janúar: Ísland - Argentína (17.00)
24. janúar: Ísland - Egyptaland (14.30)
26. janúar: Ísland - Króatía (17.00)

Áætlaðar tímasetningar eru í svigum en þær geta breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert