Lærisveinar Alfreðs áttu ekki roð í meistarana

Mathias Gidsel í kröppum dansi í kvöld. mstrup / Ritzau …
Mathias Gidsel í kröppum dansi í kvöld. mstrup / Ritzau Scanpix / AFP) / Denmark OUT AFP/Bo Amstrup

Mathias Gidsel fór á kostum fyrir heimsmeistara Danmerkur þegar liðið vann stórsigur gegn Þýskalandi, sem Alfreð Gíslason þjálfar, þegar liðin mættust í fyrstu umferð milliriðils eitt á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Herning í Danmörku í kvöld.

Leiknum lauk með tíu marka sigri danska liðsins, 40:30, en Gidsel gerði sér lítið fyrir og skoraði 10 mörk í leiknum.

Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins og var staðan 8:7, Danmörku í vil, eftir rúmlega tíu mínútna leik.

Þá hrökk danska liðið í gang og skoraði fjögur mörk í röð og komst fimm mörkum yfir. Danir leiddu með sex mörkum í hálfleik, 24:18, og Þjóðverjar voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik.

Simon Pytlick skoraði átta mörk fyrir Dani en Julian Köster og Timo Kastening voru markahæstir hjá Þjóðverjum með sex mörk hvor.

Danir eru með sex stig eða fullt hús stiga í efsta sæti riðilsins en Þjóðverjar koma þar á eftir með fjögur stig í öðru sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert