„Ég er löngu kominn í þjálfaragírinn og klár í leikinn við Egyptaland,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við mbl.is í dag.
Líf landsliðsþjálfara á stórmóti er ekki alltaf dans á rósum og er stundum mikilvægara að leikgreina andstæðinginn en að sofa.
„Ég slakaði aðeins á eftir leikinn við Slóveníu en ég fór seint að sofa. Ég vaknaði samt snemma og fór að hugsa um Egyptana. Ég er ekki illa sofinn en ég er lítið sofinn. Ég fór glaður á koddann enda mjög þreyttur.
Þessir leikdagar og leiktímar gera dagana gríðarlega langa og það er búið að vera mikið að gera. Ég hvíldist vel en þú hefur ekki tíma í að fara langt niður eða hátt upp. Það er kúnstin í þessu. Við erum í góðum málum með okkar fjögur stig en þetta er fljótt að breytast,“ sagði Snorri við mbl.is.
Ísland leikur við Egyptaland klukkan 19.30 annað kvöld í fyrsta leik liðanna í milliriðli á HM.