Ekkert skemmtilegra fyrir okkur handboltamenn

Viggó fagnar sigrinum í kvöld.
Viggó fagnar sigrinum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Viggó Kristjánsson, markahæsti leikmaður Íslands í sigrinum á móti Egyptalandi á HM í handbolta í kvöld, var í afar góðu skapi þegar hann ræddi við mbl.is eftir leik.

„Það er ótrúlega góð tilfinning að spila vel og það eru svona margir Íslendingar í stúkunni. Það er ólýsanlegt og það er ekkert skemmtilegra en það fyrir okkur handboltamenn.

Það er ekki sjálfsagt að Íslendingarnir komi og styðji vel við okkur í janúar. Það gerir þetta svo miklu skemmtilegra fyrir okkur. Þetta er eins og að spila á heimavelli,“ sagði Viggó kátur.

Viggó á vítalínunni í kvöld.
Viggó á vítalínunni í kvöld. mbl.is/Eyþór

Rétt eins og á móti Slóveníu náði íslenska liðið forskoti snemma leiks og hélt því allan leikinn.

„Þetta var svipaður leikur og á móti Slóvenum upp á að það gekk ekki allt upp hjá okkur í sókninni. Baráttan var til fyrirmyndar og Viktor góður á bak við.“

Íslenska liðið gulltryggir sér sæti í átta liða úrslitum með sigri á Króatíu á föstudagskvöld.

„Það eru tveir leikir eftir og þetta er sama tuggan. Við þurfum að undirbúa okkur eins vel og við getum, taka góða endurheimt og halda okkur á jörðinni. Þá vonandi getum við unnið Króatíu,“ sagði Viggó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert